föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ólympíudraumurinn daufur

23. október 2013 kl. 08:41

Bréfið sem Elisa-Maria fékk frá þýska Ólympíusambandinu. Mynd/FEIF

Handskrifað svar til ungrar hestakonu.

Marga dreymir um að sjá íslenskar hestaíþróttir á Ólympíuleikunum. Elisa-Marie Schroeder, 11 ára þýsk hestahnáta er ein þeirra. Hún fór á stúfana að leita svara og skrifaði bréf til þýska Ólympíusambandsins. Hún fékk handskrifað svar til baka frá ábyrgðamanni sviðsins, Maike Elger.

Í bréfinu segir að íþróttamenn svo marga íþróttagreina vilji taka þátt í Ólympíuleikunum. En því miður sé mörgum sleppt. Hestaíþróttir á Ólympíuleikunum eiga undir höggi að sækja vegna fárra áhorfenda, en áhorf á íþróttina er einmitt mikilvægasti þáttur þess hvaða íþróttir taka þátt í leikunum. Vegna þess að meira fólk horfir á aðrar íþróttagreinar, voru áherslur á hestaíþróttir (dressúr og hindrunarhlaup) minnkaðar nýlega.

Einnig gerir Ólympíusambandið ákveðnar kröfur um virka íþróttamenn í öllum heimshlutum, en slíkt er erfitt í Íslandshestamennskunni.

Alþjóðasamtökin FEIF birtir bréfið á heimsíðu sinni og þar með fékk Elisa-Maria svör. Þó lítil von er í að sjá íslenska hestinn sýna lipurð sína og fimi á Ólympíuleikum dregur það vonandi ekki úr áhuga hennar, né annarra ungra hestamanna, á íslenska hestinum.

Þess má þó geta að íslenski hesturinn fer víða og er nú að finna í flestum heimsálfum. Því er kannski ekki langt að líða þar til við sjáum enn fleiri þjóðir taka þátt í Heimsleikunum.