miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ólöglegur einjárnungur hlýtur blessun

31. júlí 2012 kl. 13:40

Mélin í BombersBits, einjárnungi með tunguboga, eru að mestum hluta úr 8 millimetra teini, sem er ólöglegur samkvæmt íslenskum reglum um mél í kynbóta- og gæðingasýningum.

Margar toppsýningar kynbótahrossa í ár og í fyrra ólöglegar samkvæmt reglum um beislabúnað í kynbóta- og gæðingasýningum.

Fjöldi kynbótasýninga á þessu ári og í fyrra eru ólöglegar. Þar á meðal sýningar margra helstu topphrossanna. samkvæmt reglum er lágmarksþykkt beislisméla 10 millimetrar. Á það bæði við í kynbótasýningum og gæðinga- og íþróttakeppni.

Vitað er að í kynbótasýningum hafa verið notuð stangamél með einjárnungi með tunguboga, þar sem megnið af mélinu eru úr 8 millimetra teini. Ekki hefur fengið staðfest að þessi mél hafi sloppið í gegn á gæðinga- og íþróttamótum.

Á heimsmeistaramótinu í Austurríki í fyrra kynnti "BombersBits" mélaframleiðandi vörur sínar. Þar á meðal „nýjungar“ í beislismélum fyrir íslenska hesta. Er þar um að ræða stælingar á svokölluðum "Jolla stöngum" og stöngum með einjárnungi og tunguboga, sem hestavöruverslunin Ástund hefur lengi haft á boðstólum og aðrir hafa tekið upp svipaðar útgáfur af.

BombersBits stangir með einjárnungi og tunguboga, með 8 millimetra teini, hafa verið í notkun hér á landi síðan í fyrra í það minnsta. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við notkun þeirra í kynbótasýningum samkvæmt heimildum Hestablaðsins.

Teinninn í boganum er úr hrjúfu efni og í hlykknum út við kjálkana (þar sem teinninn er þykkari) mætast tvisvar ólíkar málmtegundir; ryðfrítt gljándi stál og hrjúft ryðgað stál. Slík samsetning hefur í för með sér leiðni og viðkomunni má líkja við þegar álpappír kemur við tannfyllingu. Markmiðið er að fá hrossið til að japla meira á mélunum og fá þannig meiri eftirgjöf.

Hér er um gríðarlega harðan búnað að ræða og Hestablaðið hefur heimildir um eitt  staðfest tilvik þar sem sauma varð tungu á hrossi vegna notkunar þessara méla. Eftir því sem Hestablaðið kemst næst hafa engar athugasemdir verið gerðar við þessi mél af hálfu LH, BÍ eða dýralækni hrossasjúkdóma. Og verður því að líta svo á að mélin hafi hlotið blessun sérfræðinga.