miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óþekkt innflutt veira

Jens Einarsson
23. júní 2010 kl. 13:14

Pestin þrálátari en búist var við

Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og doktor í veirufræði, segir að 99,9% líkur séu á því að innflutt óþekkt veira sé orsök hóstapestarinnar. Hrossin muni mynda ónæmi gagnvart henni, en hvað það taki langan tíma sé ekki hægt að segja fyrir um. Pestin sé þrálátari en menn bjuggumst við í upphafi, líklega vegna eftirfylgjandi kjölfarssýkinga.

Vilhjálmur segir að ólíklegt sé að frumorsökin sé herpes EHV2og5. Þær veirur séu þekktar í íslenska hrossastofninum og hafi líklega fylgt honum frá landnámi. Ennþá er því sú kenning uppi að óþekkt veira sé frumorsök pestarinnar. Orsakavaldur sterkari einkenna á síðari stigum sé bakterían Streptococcus zooepidemicus

Á síðustu tveimur áratugum hafa sjö ný smitefni í hrossum borist til landsins. Öll hafa valdið sjúkdómum nema eitt svo vitað sé, sem nefnist Reo og leggst á öndunar- og meltingarfæri. Ekki tókst að rækta og greina veiruna sem olli hitasóttinni 1998 svo óyggjandi sé, þótt sterkar vísbendingar væru um Picorna veiru væri að ræða. Rhino 1 og 2, sem leggst á öndunarfæri, hafa verið greindar hér á landi, sveppasýking hefur verið greind og er landlæg, Adenovirus 1 olli hvarmabólgufaraldri 2004. Veiran sem veldur pestinni nú hefur ekki enn verið greind.

Rætt er við Vilhjálm í 6. tölublaði Hesta og hestamanna, sem kemur út á morgun. Með annars um hrikalegar afleiðingar þess ef smitvarnir verða lagðar af og innflutningur hrossa leyfður.