sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ó borg mín borg - bréf frá Ágústi Sigurðssyni-

28. janúar 2010 kl. 09:29

Ó borg mín borg - bréf frá Ágústi Sigurðssyni-

Ég á oft leið um Reykjavík, höfuðborg okkar Íslendinga. Þangað þarf maður í mörgum erindagjörðum, vegna vinnu og ýmissa snúninga enda býr þar stór hluti landsmanna. Höfuðborgarsvæðið er miðstöð stjórnsýslunnar og viðskiptanna en ekki síður menningarinnar. Þar eru helstu leikhús þjóðarinnar, kvikmyndahús, skemmtistaðir og fótboltahallir. Þar eru á næstu grösum Sinfónían og Smáralind, Kaplakriki og Kaffivagninn. Ys og þys og allt sem prýða má einn höfuðstað og þangað er margt að sækja. Mér þykir vænt um borgina mína – Reykjavík.

Hvað sem þessari aðdáun minni á borginni líður þá er ég í eðli mínu landsbyggðarmaður. Líður best úti á landi, uppi í sveit, út í hesthúsi eða haga – nánast á beit að sögn konu minnar. Ég þekki töfra sveitanna og er mikið í mun að landsbyggðin fái að njóta sín þar sem hún er sterkust. Þess vegna fann ég hvöt hjá mér að hripa þessar línur.

Ég hef frétt að til standi að halda Landsmót okkar hestamanna árið 2012 í Reykjavík. Sé þetta raunin þá tel ég slíkt mjög misráðið og í rauninni tímaskekkju. Þessi hátið á ekki heima í borg heldur úti á landi. Rétt eins og sinfónían myndi aldrei þrífast til lengdar á Súðavík þá er dauft yfir Landsmóti í Víðidal. Það er óþarfi að draga það til Reykjavíkur sem betur nýtur sín annars staðar. Af hverju að slá upp óperu í strákofa þegar Metropolitan stendur til boða?  Landsmót hestamanna á heima úti á landi!

Ágúst Sigurðsson
Kirkjubæ