miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt tölublað Eiðfaxa

1. september 2019 kl. 11:00

Jóhann R.Skúlason og Finnbogi frá Minni Reykjum prýða forsíðuna. Myndina tók Sofia Lathinen Carlsson

Nýjasta tölublað Eiðfaxa fór í dreifingu fyrir helgi og ætti að berast þeim sem ekki hafa nú þegar fengið blaðið í hendurnar á morgun mánudag.

 

Forsíðu tímaritsins prýðir Jóhann Rúnar Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum en myndin tók Sofia Lahtinen Carlsson. Sofia á margar af þeim myndum sem teknar eru á Heimsmeistaramótinu, en þar er á ferðinni ákaflega fær ljósmyndari með næmt auga.

Í blaðinu má finna umfjallanir um allar keppnisgreinar á Heimsmeistaramótinu sem fram fór í Berlín í ágúst hvort sem um er að ræða hringvallargreinar eða skeiðgreinar.

Viðtal er við Franzisku Mueser sem sigraði þrefalt í ungmennaflokki á Speli frá Njarðvík. Viðtali er áhugavert en í því kemur hún m.a. inná kostina við það að ríða íslenskum hesti.

Óðinn Örn Jóhannsson fjallar um kynbótasýningar á HM og skrifar hann um alla aldursflokka sem í dómi voru.

Kristinn Hugason heldur áfram að fjalla um veðreiðar og snýr sér nú að veðreiðum erlendis. Fjallar hann um starfsemi þeirra og aðstæður. Í næsta tölublaði mun hann síðan birta grein þess efnis hvernig við íslendingar eigum að bera okkur við að koma á fótinn slíkri starfsemi með tilheyrandi ávinningi.

Ásdís Ósk Elvarsdóttir stóð sig vel á heimsmeistaramótinu og tók Eiðfaxi hana tali um hvernig upplifun það er að keppa fyrir hönd sinnar þjóðar.

Síðasti þáttur greinarinnar Þarfasti þjónninn eftir Bjarna Bjarnason er birtur í þessu blaði. Vonandi hafa lesendur haft fróðleik af því að lesa um það hvernig íslenski hesturinn var notaður fyrir vélaöldina. Bjarna tekst á undraverðan hátt að segja rétt frá notkun hestsins án þess að gera lítið úr fyrritíðar fólki.

Ólafur Ingi Ólafsson ljósmyndari var með myndavélina á lofti í Berlín og fangaði stemminguna meðal íslensku áhorfendanna en eina opnu má finna með hluta af þeim myndum.

Þetta ásamt mörgu fleiru má finna í nýjasta tölublaði Eiðfaxa sem má nálgast í lausasölu víða um land, ef þú ert ekki nú þegar orðinn áskrifandi.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is eða hringja í síma 537-9200. Mánaðaráskrift kostar litlar 1338 krónur sem einhversstaðar þætti gjöf en ekki gjald.

F.h. Eiðfaxa

Gísli Guðjónsson Ritstjóri