laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt líf í Eyjafirði

Jens Einarsson
30. september 2009 kl. 09:51

Ungt tamningafólk bætist í hópinn

Svo virðist nýtt líf sé að færast í hestamennsku á Akureyri og víðar í Eyjafirði. Vilja margir meina að reiðhöll Léttis á Akureyri hafi haft þegar haft jákvæð áhrif og smitað út frá sér. Líkt og gerðist eftir að Svaðastaðahöllin á Sauðárkróki var tekin í gagnið.

Fullt hús hjá Baldvini Ara

Baldvin Ari Guðlaugsson á Akureyri er að venju með fullt hús af hrossum, þrjátíu söluhross og átta trippi á fjórða vetur úr eigin ræktun. Fimm trippi á fjórða vetur eru ókomin af fjalli. Þar á meðal er hryssan Kvika frá Efri-Rauðalæk, sem er undan Gígjari frá Auðsholtshjáleigu og Kviku frá Brún.

Kvika eldri drapst fyrir röskum þremur árum ásamt annarri hryssu á Efri-Rauðalæk, sennilega úr hitapest. Með naumindum tókst að bjarga folaldinu úr Kviku, sem var hryssa og skírð í höfuðið á móður sinni. Kvika eldri hefur gefið marga þekkta gæðinga. Má þar nefna Ljósvaka frá Akureyri, og þau Drottningu, Hraunar og Krók frá Efri-Rauðalæk. Allt frábærir gæðingar og keppnishross. Alls hefur hún gefið sjö fyrstu verðlauna hross, og hugsanlega bætist eitt í hópinn að vori.

Fjölgar fram í firði

Tamningafólki fram í Eyjafirði hefur fjölgað síðustu misseri. Ásdís Helga Sigursteinsdóttir og Gísli Steinþórsson frá Kýrholti í Skagafirði eru nú við tamningar á Melgerðismelum. Lina Erikson frá Svíþjóð er að hefja tamningar á Grund og Þórhallur Rúnar Þorvaldson og Sara Elisabet Arnbro í Ysta-Gerði eru með stöð í fullum gangi. Sömuleiðis Stefán Birgir Stefánsson í Litla-Garði.