fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt fyrirkomulag á HM2011

26. apríl 2011 kl. 15:05

Dómarar á HM2009 í Sviss. Þorgeir Guðlaugsson, búsettur í Hollandi, til hægri.

Skipt um dómara eftir forkeppni

Á HM í Austurríki verður tekið upp nýtt fyrirkomulag á niðurröðun dómara. Í stað þess að draga um hverja grein fyrir sig, eins og tíðkast hefur, hefur öllum störfum dómara og ritara verið skipt niður á 15 dómaranúmer sem dregið verður um í upphafi móts.

Eftir að dómari hefur dregið sitt númer veit hann nákvæmlega hvaða greinar hann dæmir, á hvaða stað hann situr og hjá hverjum hann ritar. Þannig mun sá sem dregur dómaranúmer 1 dæma tölt T1, gæðingaskeið og 250 metra skeið en vera ritari í fimmgangi og í 100 metra skeiði. Þessi skipting nær þó aðeins til undankeppni því að henni lokinni verður á ný dregið um þá sem dæma úrslitin.

Þá hefur einnig verið ákveðið að HM dómararnir muni ekki lengur sinna eftirliti á æfingum og verður það starf falið sérstökum eftirlitsdómurum sem einnig munu hafa auga með aðbúnaði hrossa og sjá um fótaskoðun.

Að mati dómaranefndar FEIF, sem lagði þessar breytingar til, er nauðsynlegt að keppendur fái að æfa sig án þess að eiga á hættu að hugsanleg mistök eða hnökrar hafi áhrif á þá sem dæma viðkomandi þegar á hólminn er komið.