mánudagur, 14. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt blað komið út

29. júlí 2013 kl. 11:25

Jakob og Alur frá Lundum

Eiðfaxi kynnir þá sem keppa munu í Berlín.

Hestablaðið Eiðfaxi er nú komið úr prenti.

Meðal efnis í Hestablaðinu og Eiðfaxa sem hafa runnið saman í eitt undir nafninu Eiðfaxi, er saga heimsleika Íslenska hestsins, Íslandsmót, Fjórðungsmót, viðtal við hestakonuna Nicki Pfau og fullt af öðru áhugaverðu efni.

Einnig er kynning á þeim kynbótahrossum og sportknöpum sem munu keppa fyrir okkar hönd í Berlín.  Hér má sjá listann sem birtist í blaðinu:

Jóhann Rúnar Skúlason og Hnokki frá Fellskoti

Jóhann og Hnokki eru ríkjandi heimsmeistarar í tölti og áhugavert verður að sjá hvort þeir nái að verja titil sinn í Berlín þar sem þeir munu keppa í tölti og fjórgangi. Jóhann hefur verið búsettur í Danmörku undanfarin ár þar sem hann vinnur við tamningar og þjálfun. Óhætt er að segja að Jóhann sé með nokkra yfirburði þegar kemur að því að sigra töltkeppni. Fimmfaldur heimsmeistari í tölti, margfaldur danskur meistari og státar af því að hafa unnið töltið á World Cup frá upphafi. Hann og Hnokki hafa átt farsælan keppnisferil bæði í tölti og fjórgangi og verður spennandi að fylgjast með þeim í Berlín en nú síðast sigruðu þeir töltið á danska meistaramótinu.

 

Bergþór Eggertsson og Lótus van Aldenghoor

Bergþór og Lótus eru ríkjandi heimsmeistarar í 250 metra skeiði og hafa átt þann titil frá árinu 2007 en árið 2007 urðu þeir einnig heimsmeistarar í 100 metra skeiði. Þeir munu að sjálfsögðu reyna að verja titillinn í Berlín en einnig munu þeir taka þátt í 100 metra skeiði og gæðingaskeiði. Bergþór býr í Þýskalandi og starfar þar við tamningar. Þeir Lótus eru orðnir þaulvanir keppni og ættu því að vera orðnir nokkuð öruggir. Þeir hafa fjórum sinnum áður tekið þátt á Heimsleikum, árið 2005, 2007, 2009 og 2011. Besti tími Bergþórs og Lótusar í ár er 20.80 sek. en þeir sigruðu síðustu Heimsleika á tímanum 21.89 sek.

 

Jakob S. Sigurðsson og Alur frá Lundum

Þeir eru eitt farsælasta par á keppnisbrautinni síðast liðin ár. Jakob er menntaður reiðkennari og tamningamaður frá Háskólanum á Hólum en hann vinnur við tamningar í Steinsholti. Jakob hefur alla tíð verið með Al í þjálfun en hann tamdi hann og sýndi. Alur hefur hlotið 8,46 í aðaleinkunn í kynbótadómi. Jakob og Alur hafa verið í sérflokkki lengi hvað varðar slaktaumatölt en brutu þeir félagar 9,00 múrinn á Íslandsmótinu í Borgarnesi nú fyrr í sumar. Þeir eru þrefaldir Íslandsmeistarar í slaktaumatölti og tvöfaldir í fimmgangi. Þeir eru skráðir til leiks í fimmgang, slaktaumatölt, gæðingaskeið, 250 metra skeið og 100 metra skeið. Jakob og Alur eru orðnir reyndir saman og þekkja hvorn annan vel því ættu þeir að vera mikil styrkur fyrir íslenska landsliðið.

 

Haukur Tryggvason og Hetta frá Ketilsstöðum 

Haukur og Hetta voru varaknapar landsliðsins en vegna fráfalls Olivers og Daníels munu þau keppa fyrir Íslandshönd í fimmgangi, tölti og gæðingaskeiði. Haukur og Hetta hafa verið að gera það gott í keppnum á síðustu árum en þau sigruðu t.d. fimmganginn á þýska meistararmótinu nú í ár. Haukur starfar við tamningar og þjálfun í þýskalandi. Hetta er undan Álfasteini frá Ketilsstöðum og Hlín frá Ketilsstöðum. Hún hefur hlotið 8,22 í aðaleinkunn í kynbótadómi og m.a. 8,5 fyrir skeið. Haukur og Hetta hafa hæst farið í 7,73 í fimmgangi en þetta er fyrsta árið þeirra saman í keppni og verður gaman að sjá hvernig þeim tekst til í Berlín. 

 

 

Eyjólfur Þorsteinsson og Kraftur frá Efri-Þverá

Eyjólfur er ríkjandi Heimsmeistari í slaktaumatölti en hann sigraði á glæsihryssunni Ósk frá Þingnesi. Í ár mun Eyjólfur mæta með Kraft frá Efri-Þverá og munu þeir taka þátt í fimmgangi, slaktaumatölti, gæðingaskeiði og skeiðgreinunum. Eyjólfur og Kraftur enduðu í fimmta sæti í fimmgangi á nýafstöðnu Íslandsmóti en þar hlutu þeir 7,48 í einkunn. Eyjólfur er menntaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Kraftur er undan Kolfinni frá Kjarnholtum I og Drótt frá Kópavogi. Hann er með 8,37 í aðaleinkunn og hefur hlotið 8,5 fyrir skeið. Kraftur og Eyjólfur hafa keppt mikið saman og á þeim eflaust eftir að ganga vel en Eyjólfur mikil keppnismaður. Þeir hafa hlotið hæst í ár 8,17 í slaktaumtölti, 7,74 í fimmgangi og 7,33 í gæðingaskeiði.

 

Karen Líndal Marteinsdóttir og Týr frá Þverá II

Karen og Týr eru tiltölulega nýtt par á keppnisvellinum en eru jafnt og þétt að stimpla sig inn. Týr er undan heiðursverðlauna hestinum Hágangi frá Narfastöðum og Þernu frá Djúpadal. Týr er með afskaplega góðar grunngangtegundir og þá sérstaklega brokk og stökk. Karen útskrifaðist sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum nú í vor og stundar tamningar og þjálfun í Vestri-Leirárgörðum. Karen og Týr voru valin í landsliðið af liðstjóra eftir gott gengi á Íslandsmótinu þar sem hún endaði í þriðja sæti með 8,07 í einkunn.

 

Viðar Ingólfsson og Hrannar frá Skyggni

Viðar og Hrannar eru nýtt par á keppnisvellinum en þeir unnu sér inn sæti í landsliðinu í gegnum lykil eftir að hafa sigrað úrtökuna í vor. Þeir eru skráðir í slaktaumatölt og fjórgang. Viðar stundar tamningar á Kvíarhóli í Ölfusi og hefur löngum verið farsæll á keppnisbrautinni en hann keppti á síðasta heimsmeistaramóti á Tuma frá Stóra-Hofi. Hrannar er glæsihestur undan Pegasus frá Skyggni og Ör frá Breiðabólsstað. Hrannar og Viðar náðu góðum árangri á Íslandsmótinu en þeir enduðu í þriðja sæti í slaktaumatölti með 8,04 einkunn. Á Gullmótinu hlutu þeir 7,23 í einkunn í forkeppni í fjórgangi.

 

Hinrik Bragason og Smyrill frá Hrísum

Hinrik og Smyrill hafa verið í fremsta flokki hér heima í töltkeppni undanfarin tvö ár. Þeir voru í A úrslitum í tölti bæði á Íslandsmóti og Landsmóti í fyrra en í bæði skiptin stóðu þeir efstir eftir forkeppni. Hinrik og Smyrill hafa verið að bæta í jafnt og þétt og í úrtökunni hlutu þeir 8,37 í einkunn í forkeppni í tölti. Í úrslitunum gerðu þeir enn betur og enduðu langefstir með 8,87 í einkunn sem er hæsta einkunn sem þeir hafa farið í. Hinrik er gamalreyndur keppnismaður og hefur náð miklum árangri. Hann stundar hestamennskuna af kappi á Árbakka ásamt fjölskyldu sinni. En sonur hans er einnig í landsliðinu og er þetta í fyrsta sinn sem feðgar eru í liðinu. Smyrill er 12 vetra undan Skorra frá Gunnarsholti og Mirru frá Hrísum en þeir Hinrik eru skráðir í fjórgang og tölt.

 

Guðlaug Marín Guðnadóttir og Toppur frá Skarði

Guðlaug og Toppur ætla láta taka til sín á skeiðbrautinnni en þau eru skráð í 250 metra skeið, 100 metra skeið og gæðingaskeið. Guðlaug og Toppur unnu sér inn keppnisrétt í gegnum lykil. Besti tími þeirra í ár er 21,53 og er þetta besti tími þeirra frá upphafi. Guðlaug og Toppur hafa ekki keppt áður á heimsmeistaramóti en í fyrra urðu þau í öðru sæti í 250 metra skeiði á Norðurlandamótinu. Guðlaug stundar hestamennskuna í Danmörku og hafa hún og Toppur náð góðum árangri þar. Þau eru í öðru sæti á WR listanum í 250 metra skeiði. Toppur er undan Gauk frá Innri-Skeljabrekku og Röskvu frá Skarði. Hann er með 8,02 í aðaleinkunn og hlaut 9,0 fyrir skeið í kynbótadómi.

 

 

Sigursteinn Sumarliðason og Skuggi frá Hofi I

Sigursteinn og Skuggi voru valdir af liðstjóra í liðið eftir góðan árangur í fimmgangi, slaktaumatölti og gæðingaskeiði á Sumarsmelli Harðar. En Sigursteinn og Skuggi eru skráðir í allar þessar greinar auk þess að þeir eru einnig skráðir í 100 metra skeið. Þeir hafa gert það mjög gott í fimmgangi í ár og hafa farið hæst í 7,47 í forkeppni. Skuggi er undan Aroni frá Strandarhöfða og Þrumu frá Hofi I. Skuggi hefur hlotið 9,0 fyrir skeið og vilja og geðslag í kynbótadómi.

 

Ungmenni

 

Arnar Bjarki Sigurðarson og Arnar frá Blesastöðum 2A

Arnar og Arnar eru skráðir í fimmgang, slaktaumatölt, 250 metra skeið, 100 metra skeið og gæðingaskeið. Arnar Bjarki er menntaður frá Háskólanum á Hólum en hann stundar tamningar heima hjá sér á Sunnuhvoli. Nafnarnir urðu Íslandsmeistarar í fimmgangi í fyrra og voru þeir efstir í úrtökunni á Gullmótinu nú í sumar. Arnar Bjarki er reynslumikill knapi þrátt fyrir ungan aldur. Mikill keppnismaður og hefur verið með breiðan hestakost. Hann keppti fyrir Íslandshönd á Heimsmeistaramótinu árið 2011. Arnar frá Blesastöðum 2A er fyrstu verðlauna stóðhestur og er undan Aroni frá Strandarhöfða og Aríu frá Selfossi.

 

Arna Ýr Guðnadóttir og Þróttur frá Fróni

Arna Ýr og Þróttur taka þátt í fjórgangi og tölti. Þau hafa átt farsælan keppnisferil hér á Íslandi, hafa meðal annars orðið Reykjavíkurmeistarar og Íslandsmeistarar. Arna Ýr stundar hestamennsku að krafti í Fáki og liggur mikil vinna og fagmennska að baki árangurs þeirra Þróttar. Arna Ýr og Þróttur komust inn í landsliðið í gegnum lykil þar sem þau stóðu efst eftir úrtökuna og sýndu þau svo sannarlega að þau ættu heima þar þegar þeim tókst að ríða yfir 8,00 í tölti á Sumarsmelli Harðar. Þróttur er undan Andvara frá Ey I og Góðu-Nótt frá Bakkakoti.

 

Flosi Ólafsson og Möller frá Blesastöðum 1A

Flosi og Möller hafa heldur betur komið - séð - og sigrað. En á sínu fyrsta móti sigruðu þeir tölt í ungmennaflokki örugglega með 8,06 í einkunn. Þeir voru valdir inn í liðið í gegnum lykil eftir að hafa staðið efstir eftir úrtökuna á Gullmótinu. Flosi er ungur knapi á uppleið og hefur verið að gera það gott bæði í keppni og á kynbótabrautinni. Í fyrra sigraði hann tölt ungmenna á Norðurlandamótinu og varð annar í fjórgangi. Möller er fyrstu verðlauna stóðhestur og hefur vakið mikla athylgi fyrir gott tölt og rými. Hann er með 8,95 fyrir hæfileika en hann hefur hlotð 9,5 fyrir tölt. Möller er undan Fal frá Blesastöðum 1A og Perlu frá Haga. Þetta er fyrsta ár þeirra Flosa og Möller saman í keppni. Þeir eru til alls líklegir enda Flosi gallharður keppnismaður.

 

Gústaf Ásgeir Hinriksson og Björk frá Enni

Gústaf og Björk keppa fyrir Íslandshönd í slaktaumatölti og fjórgangi. Gústaf og Björk voru valin af liðsstjóra eftir gott gengi á Sumarsmelli Harðar þar sem þau sigruð slaktaumatöltið í ungmennaflokknum og fjórgangin í unglingaflokknum. Þetta er fyrsta og eina mótið sem þau hafa keppt á saman áður en þau fara út og verður gaman að sjá hvernig þeim gengur út í Berlín. Gústaf Ásgeir hefur náð ótrúlegum árangri einungis 17 ára. Hann hefur margoft orðið Íslandsmeistari í yngri flokkunum en nú í sumar varð hann Íslandsmeistari í fimmgangi, tölti, slaktaumatölti og samanlögðum fimmgangsgreinum. Björk er fyrstu verðlauna hryssa undan Hróði frá Refsstöðum og Sendingu frá Enni. Gústaf hefur  hafi landað 25 íslandsmeistara titlum á síðastliððnum 7 árum

 

Konráð Valur Sveinsson og Þórdís frá Lækjarbotnum

Konráð og Þórdís voru valin í landsliðið eftir Gullmótið þar sem þau sigruðu 100 metra skeiðið með besta tíma ársins hingað til, 7.46 sek. Konráð og Þórdís eru skráð í 250 metra skeiðið, 100 metra skeiðið og gæðingaskeiðið. Konráð hefur stundað hestamennsku í Fáki frá því að hann var smá polli. Konráð hefur mikin metnað og elju og eiga þau Þórdís eflaust eftir að standa sig með sóma. Þórdís er undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum og Gyðju frá Lækjarbotnum. Þórdís hefur hlotið 8,5 fyrir skeið í kynbótadómi.

 

Hér kemur listi yfir þau kynbótahross sem fara:

 

5v hryssur

Vakning frá Hófgerði, knapi Sigurður Vignir Matthíasson

Vakning er dóttir Gára frá Auðsholtshjáleigu og Viðarsdótturinnar Væntingar frá Voðmúlastöðum. Vænting hefur gefir fjögur 1.verðlauna afkvæmi og þar á meðal Vigni frá Selfossi sem var hæst dæmdi 4 vetra stóðhestur ársins 2007 með 8,27 í aðaleinkunn.

Vakning var í 4 vetra flokki hryssna á LM2012 og hlaut þar 8,11 í aðaleinkunn þá sýnd af Þórði Þorgeirssyni. Nú í ár var Vakning sýnd tvisvar sinnum fyrst á Selfossi þar sem hún hlaut 8,20 og aftur á Gaddstaðaflötum þar sem hún hækkaði í 8,33 í aðaleinkunn sýnd af Árna Birni Pálssyni.

Dómur Vakningar er sjöundi hæsti dómur árisin í 5 vetra flokki en þriðji hæsti dómur í flokknum hér á landi. Hæstan dóm í flokknum hlaut Ísarsdóttirin Djörfung frá Solbacka 8,57 í aðaleinkunn.

 

 

5v stóðhestar

Desert frá Litlalandi, knapi Guðmundur Fr. Björgvinsson.

Desert er sonur Tjörva frá Sunnuhvoli og 1.verðlauna hryssunar Rán frá Litlalandi en hann er eina sýnda afkvæmi hennar. Rán er ein af fimm 1.verðlauna systkynum en hún er m.a. systir Ægirs frá Litlalandi.

Desert var í 4 vetra flokki stóðhesta á LM2012 og hlaut þar 8,13 í aðaleinkunn. Nú í ár var hann sýndur í tvígang fyrst á Selfossi þar sem hann hlaut 8,07 í aðaleinkunn en hækkaði á Miðfossum í 8,35 sýndur af Guðmundir Friðriki Björgvinssyni.

Dómur Deserts er sjöundi hæsti dómur ársins í 5 vetra flokki en fimmti hæsti dómur í flokknum hér á landi. Hæstan dóm ársins í flokknum á Kolskeggur frá Kjarnholtum en hann hlaut 8,48 í aðaleinkunn sýndur á Melgerðismelum. Hæstan dóm utan Íslands hlaut norski  stóðhesturinn Nói frá Jakobsgården 8,46 í aðaleinkunn.

 

6v hryssur

Fura frá Hellu, knapi  Guðmundur Fr. Björgvinsson

Fura er dóttir Eldjárns og 1.verðlauna hryssunar Aspar frá Snjallsteinshöfða en hún á eitt 1.verðlauna afkvæmi utan Furu.

Fura var bæði á LM2011 og LM2012 en hún hlaut 8,07 í einkunn 4 vetra en stóð efst í 5 vetra flokki hryssna á LM2012 með 8,46 í aðaleinkunn. Nú í ár fyrst á Gaddstaðaflötum þar sem hún hlaut 8,50 í aðaleinkunn og svo á Miðfossum þar sem hún hækkaði um þrjár kommur, sýnd af Guðmundi Friðriki Björgvisnsyni.

Dómur Furu er hæsti dómur ársins í flokknum en hæsti dómur í flokknum utan Íslands á Embrio frá Hrafnsholt en hún hlaut 8,51 sýnd í Osterbyholz.

 

 

6v stóðhestar

 

Gígur frá Brautarholti, knapi Þórður Þorgeirsson.

Gýgur er sonur Glyms frá Innri-Skeljabrekku og 1.verðlauna Stígsdótturinnar Gæsku frá Fitjum. Gígur er eina 1.verðlauna afkvæmi hennar.

Gígur var fyrst sýndur 5 vetra gamall í Wurz og hlaut þá 8,39 í aðaleinkunn en nú í ár var hann sýndur í Osterbyholz og hlaut 8,53 í aðaleinkunn sýndur af Þórði Þorgeirssyni.

Dómur Gígs er sjötti hæsti dómur ársins í flokknum en hæstan dóm hér á landi hlaut Jarl frá Árbæjarhjáleigu 8,71 en hæstan dóm í flokknum á þýski stóðhesturinn Spóliant frá Lipperthof en hann hlaut 8,75 í aðaleinkunn.

 

 

7v og eldri hryssur

 

Salka frá Snjallsteinshöfða, knapi Elías Árnason.

Salka er dóttir Storms frá Leirulæk og Hrannarsdótturinnar Gjáar frá Feti.

Salka var í 5 vetra flokki á LM2011 og sýnd aftur á Miðfossum 6 vetra og hlaut þá 8,15 í aðaleinkunn, en er seld til Danmerkur þá um haustið. Nú í ár var hún sýnd í Osterbyholz og hlaut þá 8,32 í aðaleinkunn.

Dómur Sölku er sá tólfti hæsti í flokknum en hæstan dóm hér á landi hlaut Kolka frá Hákoti 8,66 en hæstan dóm í flokknum hlaut danska hryssan Odda frá Gultentorp 8,71 í aðaleinkunn.

 

7v og eldri stóðhestar

Feykir frá Háholti, knapi Sigurður Óli Kristinsson.

Feykir er sonur Andvara og 1.verðlauna Hamsdótturinnar Eflingar frá Háholti og er Feykir eina 1.verðlauna afkvæmi hennar.

Feykir var fyrst sýndur 5 vetra gamall á Gaddstaðaflötum og hlaut þá 8,37 í aðaleinkunn. Hann fór sem fulltrúi Íslands á HM2011 og varða þar annar með sömu einkunn og Tígull fra Kleiva 8,38 í aðaleinkunn en lægri á aukastöfum.

Í fyrra var hann sýndur í Herning og hlaut þá 8,60 í aðaleinkunn en hækkar nú í ár í 8,71 og hefur jafnan verið sýndur af Sigurði Óla Kristinssyni .

Dómur Feykis er sá hæsti í flokknum en jafn honum er Narri frá Vestri-Leirárgörðum. Hæsti dómur í flokknum utan Íslands hlaut sænski stóðhesturinn Divar frá Lindnäs 8,68 í aðaleinkunn.