þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýráðnir Hólakennarar teknir tali

7. október 2011 kl. 14:26

Nýráðnir Hólakennarar teknir tali

Í júlí auglýsti Hólaskóli lausar stöður reiðkennara og voru þau Erlingur Ingvarsson og Þórdís Anna Gylfadóttir boðnar stöðurnar. Eiðfaxi sló á þráðinn til Erlings og Þórdísar Önnu og forvitnaðist um nýju verkefnin þeirra.

Spennandi tímar framundan

Erlingur útskrifaðist frá Hólum árið 1998, þá efstur í sínum árgangi. Síðan þá hefur hann starfað við tamningar, þjálfun og kennslu hér heima og í Svíþjóð. Hann hefur síðustu þrjú árin starfað við í Torfunesi. Þá býr hann að mikilli reynslu af keppni, sigraði m.a. A-flokk gæðinga á Fjórðungsmótinu 2009 á Mætti frá Torfunesi og það sama ár tóku þeir félagar þátt í fimmgangskeppninni á Heimsmeistaramótinu í Sviss.  

“Fyrst um sinn fylgist ég mikið með kennslu hjá hinum reiðkennurunum til að koma mér inn í starfið. Ég er byrjaður að kenna Grunnreiðmennsku hjá 1. árs nemum á móti Mette Mannseth en svo mun ég kenna nemendum á öðru ári Þjálfun frá næstu mánaðarmótum. Þá verða frumtamdir hestar teknir fyrir, bæði hestar sem skólinn á auk hesta sem hingað eru sendir í þjálfun. Nemendur þurfa að átta sig á þörfum hvers hests fyrir sig, hvað þarf að bæta og hvernig. Síðan vinnur hver nemandi með tvo hesta sem eru svo aftur teknir út í lok þjálfunar,” segir Erlingur um verkefnin sín framundan. “Mér líst vel á starfið, þetta er gott tækifæri fyrir mig. Þegar maður kennir öðrum þá tekur maður sjálfan sig í heilmikla sjálfsskoðun um leið. Þetta eru því spennandi tímar sem verða skemmtilegri eftir því sem ég kemst meira inn í starfið,” segir hinn nýráðni kennari en auk þes að sjá um kennslu þjálfar hann hross, bæði á eigin vegum og skólans. “Hér er auðvitað frábær aðstaða til alls er tengist þjálfun og reiðmennsku. Það víkkar líka sjóndeildarhringinn að starfa með mikið af færu og metnaðargjörnu fólki í kringum sig.”

Inntur eftir því hvort hann fylgist með gamla félaga sínum, Mætti frá Torfunesi, segist Erlingur fá tölvupósta frá eigandanum annað slagið. “Ég fæ aðeins að forvitnast um hann. Eigandinn er mjög ánægður með hann og sendir mér pósta þegar hann nær góðum árangri, t.d. varð hann Svissneskur meistari í fimmgangi í ár. Það var þó ansi svekkjandi að hann skildi rífa undan sér á HM, en þetta er hestur sem getur enn bætt sig og ég býst við að sjá hann í Berlín 2012,” segir Erlingur.

Áhugasamir nemendur

Þórdís Anna er einnig menntuð frá Hólum, útskrifaðist sem reiðkennari vorið 2009. Síðan þá hefur hún starfað við reiðkennslu og þjálfun auk þess að starfa hjá hjá Landssambandi Hestamannafélaga og Landsmóti.

“Ég hef verið í hestamennsku frá því ég var krakki og fór snemma að elta stóru systur, Erlu Guðný, í hesthúsið. Undanfarin ár höfum við fjölskyldan verið með um 20 hross á húsi og einnig stundum við hrossarækt í litlu mæli,” segir Þórdís sem nú tekst á við nýtt og spennandi verkefni. “Starfið leggst vel í mig og undanfarnar vikur eru búnar að vera skemmtilegar og lærdómsríkar. Þetta er frábært tækifæri fyrir mig til að bæta mig og læra af hinum reiðkennurum skólans.  Fyrstu vikurnar fylgdist ég mikið með kennslunni og rifjaði upp kynnin við skólahestana, sem eru margir hverjir miklir snillingar. Svo hef ég undanfarnar vikur kennt nemendum í BS-Hestafræði, sem er sameiginlegt nám LBHÍ og Hólaskóla, reiðmennskuáfanga með Mettu Mannseth og Elísabetu Jansen. Það hefur verið mjög gaman enda eru nemendurnir mjög áhugasamir,“ segir Þórdís.