laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr veruleiki blasir við hestamönnum

Jens Einarsson
18. ágúst 2010 kl. 13:09

Gefnar verða út reglur um hestahald

Hugsanlegt er að hestamenn standi frammi fyrir nýjum veruleika og að hestahald hér á landi verði eftirleiðis með allt öðrum hætti en verið hefur. Í bígerð er að gefa út leiðbeiningar og reglur um hestahald í þéttbýli og á hrossabúum, sem fela í sér meiri aðskilnað hrossa. Þéttleiki hrossa í hesthúsahverfum, í stóðhestahólfum og stórum hrossahópum á hrossabúum, eru kjöraðstæður fyrir hrossapestir.

Á fundi forystumanna í hestamennsku með dýralæknum og sérfræðingum í veiru- og hrossasjúkdómum, sem haldinn var í gær, kom fátt nýtt fram. Engin veira hefur enn fundist sem óyggjandi getur talist orsakavaldur. Líklegra er að bakterían Streptococcus zooepidemicus sé eini orsakavaldurinn, en hún er talin geta valdið faraldri í næmum hrossahópum eins og hér á landi.

Tilefni fundarins var mikill kurr á meðal hestamanna, sem margir standa frammi fyrir því að hross þeirra eru ennþá veik eftir margra mánaða meðgöngu, eða hafa verið að veikjast nýlega. Folöld hafa veikst illa í stóðhestahólfum og vitað er um nokkur sem hafa drepist af völdum pestarinnar. Nú haustar að og margir óttast hvað haustrigningar og komandi vetur ber í skauti sér.

Eggert Gunnarsson, deildarstjóri á Keldum, segir að sleitulaust sé unnið að því að finna orsakavaldinn í samstarfi við erlendar rannsóknarstofur. Um 200 afbrigði séu til af Streptococcus zooepidemicus og af og til séu ný að skjóta upp kollinum. Það hafi hugsanlega gerst hér á landi. Pestin sé langvinnari og hegði sér öðruvísi en menn átti von á í upphafi.

Eins og kunnugt er var Landsmóti hestamanna 2010 frestað um eitt ár vegna hrossapestarinnar. Engar aðrar hömlur hafa verið settar mótahald, þrátt fyrir að leiða megi líkum að því að smit geti magnast upp við þær aðstæður. Góð þátttaka hefur verið í kynbótasýningum og íþrótta- og gæðingamótum. Mikil skráning er á Íslandsmót fullorðinna sem verður haldið á Sörlastöðum um aðra helgi. Hestaferðir ferðaþjónustuaðila hafa að mestu gengið eðlilega fyrir sig í sumar. Þannig að óhætt er að segja að miklar mótsagnir séu í upplifun fólks af hrossapestinni.