mánudagur, 14. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr knapi í Meistaradeild VÍS

Jens Einarsson
10. september 2009 kl. 13:49

Hollenskur fyrirmyndarnemandi færir sig upp á skaftið

Artemisa Bertus er nýr knapi í Meistaradeild VÍS. Úrtaka fyrir mótaröð vetrarins fór fram í Ölfushöllinni í gærkvöldi. Tveir knapar náðu inn að þessu sinni, Artemisa og Ragnar Tómasson, sem keppti í deildinni síðastliðinn vetur.

Artemisa keppti á hestinum Sölva frá Ingólfshvoli í tölti og fjórgangi. Á Glæði frá Auðsholtshjáleigu í fimmgangi og Hugsun frá Vatnsenda í skeiði. Hún segir of snemmt að segja til um á hvaða hestum hún muni keppa í deildinni í vetur. Sjálf eigi hún góðan töltara og fjórgangshest, sem sé á haustbeit. Rósant frá Votmúla, sem hún hefur keppt á með góðum árangri undanfarin misseri. Hugsun sé einnig í hennar eigu, hún sé mjög flink í skeiðgreinum, og jafnvel í fimmgangi.

Artemisa er hollensk en hefur dvalið hér á landi í allmörg ár. Hún lauk þriggja ára námi frá Hólaskóla með besta árangri, kenndi við skólann í nokkur misseri, en hefur þar fyrir utan starfað við tamningar, meðal annars hjá Sigurði Sigurðarsyni á Þjóðólfshaga og Freyju Hilmarsdóttur á Votmúla. Hún starfar nú við tamningar á Grænhóli (Auðsholtshjáleigu) hjá þeim Gunnari Arnarsyni og Kristbjörgu Eyvindsdóttur.