þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr Eiðfaxi kominn út

21. nóvember 2013 kl. 11:27

Nóvember blað Eiðfaxa 2013 komið út.

Veglegt aukablað um öryggismál í hestamennsku fylgir með.

Ellefta tölublað Eiðfaxa á árinu er nú komið í lausasölu og ætti að berast áskrifendum í dag. Blaðið er fullt af fróðleik og áhugaverðu efni sem aldrei fyrr. Hér fyrir neðan er stiklað á stóru í efnistökum blaðsins.

Ræktunarbú keppnishrossa-Efri-Rauðilækur:

Baldvin Ari Guðlaugsson og fjölskylda hafa ræktað hross frá Efri-Rauðalæk frá árinu 1990 er þau festu kaup á jörðinni. Eins og máltækið segir að hálfnað verkþá hafið er, ákváðu þau að hryssan Dögg frá Akureyri yrði stofnhryssa búsins. Fljótt lá það ljóst fyrir að eingöngu yrði ræktað undan fyrstu verðlauna hryssum sem höfðu sterkar blóðlínur á bak við sig. 

Veik fyrir vekurð:

Líklega má halda því fram með nokkrum sanni að Vestur-Húnvetningar hafi mætt fremur seint til leiks þegar blásið var til sóknar í skipulegri ræktun reiðhestsins og sýningarhaldi. Fæstum áhugamönnum um stöðu reiðhestins mun þó í dag blandast hugur um þá þróttmiklu starfsemi sem þar er í dag rekin af ungu og vel menntuðu fólki allt frá ystu nesjum og inn til heiða í þessu víðlenda héraði.

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Gréta Brimrún Karlsdóttir bændur á Efri-Fitjum í Víðidal eru bæði Vestur-Húnvetningar. Gunnar ólst upp á Efri-Fitjum en Gréta er frá Harastöðum í Vesturhópi. Jörðina keyptu þau árið 1994 af foreldrum Gunnars og búa nú þar með sauðfé ásamt því að rækta hross með góðum árangri. Bæði eru þau búfræðimenntuð frá Hvanneyri. Áhuginn á hrossum kom á bæinn með frúnni en fljótlega náði hestabakterían að yfirtaka bóndann.

Áttu óforbetranlegan lullara?

Rannsóknarhópur á vegum Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar (SLU) og UppsalaháskólaUU), undir stjórn Gabriellu Lindgren og Leifs Andersson, vinnur nú áfram að rannsóknum á gangráðinum svonefnda. Horft er til tölts og brokks og er tilgangurinn að reyna að skilja betur hvernig erfðir eru að baki gangeiginleikum, og hvort aðrir erfðaþættir en gangráðurinn hafi umtalsverð áhrif á gangeðli hrossa.

Fróðleg fagráðstefna:

Ráðstefna fagráðs í hrossarækt var haldin í Sunnusal Hótels Sögu síðastliðin laugardag, en á ráðstefnunni fór Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur yfir niðurstöður ársins. Veitt voru verðlaun auk fræðsluerinda. Einn af hápunktum ráðstefnunar Hrossarækt 2013 er tilnefningar til ræktunarbús ársins. Alls voru 10 bú tilnefnd, Sex bú eru sunnlensk, þrjú eru vestlensk og eitt bú af norðurlandi.

Knapatilnefningar:

Árið 2013 var gert upp með glæsibrag á uppskeruhátíð hestamanna. Hápunktur kvöldsins er oftast nær afhending knapaverðlaunanna. Þegar okkar bestu knapar eru verðlaunaðir en að hljóta knapatilnefningu er mikill heiður. Blaðamaður Eiðfaxa gerði stutta úttekt á öllum þeim knöpum sem hlutu tilnefningu.

Heiðursverðlaunhryssan Nóta:

Nóta frá Stóra-Ási er fædd 1996 og hefur alið tíu afkvæmi. Fyrstu fimm þeirra hafa komið til kynbótadóms með glæsilegum árangri sem skilar hryssunni nú heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi. Lára Kristín Gísladóttir hrossabóndi á Stóra-Ási er ræktandi og eigandi Nótu. Sýnd afkvæmi Nótu eru mikil getuhross eins og kynbótadómar þeirra bera með sér.

Þessar greinar og mun meira af skemmtilegu efni má nálgast í nýjasta tölublaði Eiðfaxa

Hægt er að gerast áskrifandi í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is