sunnudagur, 20. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýliðun kynbótaknapa

2. júní 2015 kl. 10:55

Valdís Bjök Guðmundsdóttir og Hugsýn frá Svignaskarði á kynbótasýningu á Sörlastöðum.

,,Ég var með meri sem ég er búin að vera með frá byrjun og mig langaði svolítið að sýna hana sjálf," segir Valdís Björk Guðmundsdóttir.

Það hefur lengi verið sú umræða að einungis lítill hópur manna sýni flestöll kynbótahross landsins. Að undanförnu hefur þó orðið talsverð breyting á og er greinileg nýliðun að verða í röðum kynbótaknapa. Þetta eru í flestum tilfellum ungir knapar sem útskrifast hafa frá Hólum, en hluti af náminu þar hefur verið menntun sem snýr að kynbótadómum.

Á kynbótasýningunni á Sörlastöðum sýndu nokkri ungir knapar hross og er ljóst er að þau gætu skipað þann bekk í náinni framtíð. Þetta eru meðal annars Ylfa Guðrún Svafarsdóttir, Sara Sigurbjörnsdóttir, Ástríður Magnúsdóttir, Hlynur Guðmundsson og Valdís Björk Guðmundsdóttir. Þau sýndu öll að þau geta vel staðið okkar fremstu knöpum fyllilega á sporði.

,,Mig langaði að prófa að sýna í kynbótadóm. Mér hefur alltaf fundist þetta spennandi og gaman að fylgjast með kynbótadómum. Ég var líka með meri sem ég er búin að vera með frá byrjun og mig langaði svolítið að sýna hana sjálf. Ég mun alveg pottþétt gera þetta aftur,“ sagði Valdís Björk í samtali við Eiðfaxa. Nýliðun í röðum kynbótaknapa er mikilvæg og telja má víst að yngri knapar komi inn með ferska vinda og veiti eldri knöpum nauðsynlegt aðhald.