miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýárskveðja frá Félagi hrossabænda

31. desember 2016 kl. 15:44

Sveinn Steinarsson fer yfir árið í stuttu máli

 

Ágætu hestamenn. Það er gott ár að renna sitt skeið hjá okkur hestafólki. Tíðin hefur leikið við okkur, við héldum frábært landsmót auk fjölda annara viðburða innan og utanhúss. Það er víða mikil gróska í starfi hestamanna og hefur tilkoma reiðhalla skapað tækifæri til margs konar viðburða og kennslustarfa. Það er búið að kynna til leiks fjölda keppnisraða á næsta ári sem gaman verður að fylgjast með.

 Markaðsmál í rétta átt.

Hvað hrossasölu varðar þá er ánæjulegt að geta greint frá því að sala á hrossum úr landi jókst annað árið í röð. Fjöldi útfluttra hrossa á þessu ári er 1.475 sem er aukning um 8.5%  frá árinu áður og var sömuleiðis aukning milli áranna 2014 og  2015 um 7.2%. Það er ekki hægt að segja annað en að um vel merkjanlega aukningu  sé að ræða og þarf að fara aftur til ársins 2009 til að finna betra ár hvað fjölda útfluttra hrossa varðar. Það að þessi þróunn eigi sér stað þrátt fyrir óhagstæða gengisþróun er vonandi góð vísbending hvað framhaldið varðar. Það má einnig ætla að sala innanlands fari uppávið enda betra jafnvægi að komast á efnahag landsmanna. Síðan má einnig ætla og er þegar merkjanlegt að aukning í  hestaferðaþjónustu kalli á fleirri hross til endurnýjunar og viðbótar sem og til nýrra aðila í greininni.

 Eins og komið hefur fram þá erum við í Félagi hrossabænda ásamt fjölda þátttakenda í markaðsverkefninu Horses of Iceland að byggja upp markvisst markaðsstarf sem leitt er af Íslandsstofu og ætlum við þeirri vinnu að efla stöðu íslenska hestsins á markaði erlendis, ekki síst í samkeppni við önnur hestakyn. Við þurfum að sjálfsögðu stöðugt að stunda markvissa kynningu á hestinum og hestamennskunni og hef  ég hef fulla trú á því að þetta verkefni skili sér í aukningu á íslandshestamennsku víðsvegar um heiminn þegar fram líða stundir.

 

Í lokin ætla ég að minna alla hesteigendur á að gæta að hestum sínum yfir áramót og þrettándann. Koma þeim á öruggan stað ef þess er þörf enda mikið áreiti sem hross verða fyrir af völdum flugelda.

 Fyrir hönd Félags hrossabænda þakka ég öllum hestamönnum og samstarfsaðilum fyrir líðandi ár og óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs.

 Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda.