mánudagur, 26. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný spónavinnsla tekin til starfa

23. mars 2010 kl. 12:00

Ný spónavinnsla tekin til starfa

Skógarvinnslan ehf. er nýtt fyrirtæki sem er að taka til starfa í Flóanum. Það er staðsett að Heiðargerði 4 en það er iðnaðarhverfi við kjötmjölsverksmiðjuna sem margir kannast við nærri þjóðvegi 1. Skógarvinnslan verður afkastamikil verksmiðja sem vinnur hefilspæni úr íslenskum trjám. Viðurinn er sóttur í Haukadal, Þjórsárdal, að Tumastöðum og víðar.


Það eru þeir Kolviður Helgason og Þorsteinn Berg sem eiga og reka verksmiðjuna, hafa tekið á leigu 250 fermetra skemmu undir starfsemina. Fyrirtækið hefur gert samning við Skógrækt Ríkisins og Skógræktarfélag Árnesinga um grisjun skóganna og hefur þegar verið flutt mikið af viði á staðinn. Stefnt er að því að framleiða 500 tonn af hefilspæni úr 1000 rúmmetrum af trjáviði.
Kolviður Helgason framkvæmdastjóri segir að þörf hafi verið á verksmiðju sem þessari en mikið sé flutt inn af tréspæni til undirburðar fyrir hesta, undir kjúklingauppeldi o.fl.  Þetta sé gjaldeyrissparandi starfsemi.


Framleiðsluferlið er á þann veg að trjábolirnir eru bútaðir niður í rúmlega eins metra langa búta og þeir heflaðir. Spónninn er síðan hitaður uppí 160 – 200 °C í hitatromlu og kemur út með um 10% rakastigi þegar hann er tilbúinn til pökkunar í pökkunarvélinni. Spónninn er nokkuð grófari er innflutti spónninn sem allir  hestamenn kannast við og góð viðarlykt er af honum.
Núna vinna átta manns við grisjun skóganna og gert er ráð fyrir 4-5 störfum við verksmiðjuna þegar hún hefur náð fullum afköstum.
 

Sigurður Sigmundsson, fréttaritari EIðfaxa á Suðurlandi.