laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný spónaverksmiðja í Gunnarsholti

27. október 2009 kl. 12:25

Íslenskt frá A ? Ö

Ný spónaverksmiðja hefur verið sett á stofn í Gunnarsholti. Framleiðsla er þegar hafin. Hráefnið er íslenskt og öll tæki og tól í verksmiðjunni eru heimasmíðuð. Það er Einar Þórarinsson á Skammalæk og synir hans Hlynur Örvar og Sæþór Fannar sem eru eigendur verksmiðjunnar.

Smíðuðu tæki og tól sjálfir

„Já, það er rétt. Þetta er alíslensk framleiðsla,“ segir Hlynur. „Við erum einnig í því að grisja skóga, meðal annars í Gunnarsholti, og nýtum trjáboli og greinar sem til falla í framleiðsluna. Tréin eru kurluð og þurrkuð í vélum sem við höfum smíðað sjálfir.“

Spænir í 25 kílóa pakkningum eru þegar komnir á markað hjá Spónaverksmiðjunni. Þurrkstigið er 70-80%. Ballinn kostar 2500 krónur m.vsk. í smásölu í Gunnarsholti. Hægt er að semja um lægra verð ef þjónustusamningur til lengri tíma er gerður.

„Við hugsum þetta fyrst og fremst sem þjónustu við tamningastöðvar og hrossabú á Suðurlandi. Hagstæðast er þá að gera þjónustusamning. Við sjáum þá um að aka spónum til viðskipavina í minni skömmtum, til dæmis vikulega. Sem þýðir að fólk þarf ekki að taka eins mikið pláss undir spónageymslu.“

Þess má geta að Spónaverksmiðjan framleiðir líka trjákurl í göngustíga og reiðhallargólf. Hlynur segir að mikill kippur sé í sölu á trjákurli í reiðhallir. Það þyki einkar hentugt gólfefni, mjúkt og auðvelt að halda í því raka.