laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný reiðhöll rís á Selfossi

Jens Einarsson
23. febrúar 2010 kl. 13:30

Tímamót fyrir Sleipnismenn

Ný reiðhöll mun rísa í hesthúsahverfi Sleipnismanna á Selfossi á næstu dögum og vikum. Þórdís Ólöf Viðarsdóttir, nýkjörinn formaður Sleipnis, segir að efnið í höllina sé væntanlegt öðru hvoru megin við helgina.

 

Veltur á sjálfboðaliðastarfi

„Sökkullinn er tilbúinn. Við eigum svo von á sperrunum og klæðningunni ofan frá Flúðum næstu daga, öðru hvoru megin við helgina,“ segir Þórdís. „Þetta verða mikil tímamót fyrir Sleipnismenn. Það má segja að við séum töluvert á eftir miðað við stærð og staðsetningu félagsins. En nú er þetta allt að smella. Ég geri ráð fyrir að hægt verði að nota höllina að einhverju marki þegar líður á vorið. Það er hins vegar ekki tímabært að dagsetja formlega vígslu. Hraði framkvæmdarinnar veltur á hve dugleg við verðum sjálf. Planið er að smíði og frágangur verði að miklu leyti unninn í sjálfboðavinnu félagsmanna. Nokkrir iðnaðarmenn í félaginu hafa þegar boðið sig fram: múrarar, rafvirkjar og pípulagningamenn. En betur má ef duga skal og ég hvet félagsmenn til að bretta upp ermarnar og taka þátt,“ segir Þórdís Ólöf.

Því má bæta við að nýja Sleipnis höllin er límtréshús frá BM Vallá. Gólfflöturinn er 25x50 metrar og gert ráð fyrir að reiðgólfið verði ekki minna en 20x40 metrar. Sennilega heldur stærra. Í húsinu verða áhorfendabekkir fyrir allt að 200 manns. Mörg fyrirtæki og einstaklingar hafa lagt framkvæmdinni lið. Þess má geta að Óli frá Læk gróf fyrir sökklum og gaf vinnu sína við það. Og Helgi og Helga í Kjarri gáfu grús í uppfyllinguna.