fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nóta hlýtur Glettubikarinn

8. nóvember 2013 kl. 20:41

Heiðursverðlaunahryssan Nóta frá Stóra-Ási ásamt Lykil Fróðasyni frá Staðartungu. Mynd/Lára Kristín Gísladóttir

Heiðursverðlaunahryssur 2013.

Í ár hljóta tvær hryssur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi, Nóta frá Stóra-Ási og Hending frá Flugumýri. Heiðursverðlaun eru afhend á ráðstefnunni Hrossarækt 2013 sem haldin verður laugardaginn 16. nóvember nk.

Síðustu tvö ár hafa fjöldi heiðursverðlaunhryssa verið óvenju mikill, níu hlutu heiðursverðlaun í fyrra og átta árið 2011. Heiðursverðlaun hljóta hryssur með 116 stig eða hærra í aðaleinkunn kynbótamats og eiga a.m.k. 5 dæmd afkvæmi.

Þrjár hryssur uppfylltu þessar lágmarkskröfur í ár:

Nóta frá Stóra-Ási er með 118 stig í aðaleinkunn kynbótamats og hlýtur Glettubikarinn. Hún er fædd 1996 undan Oddi frá Selfossi og Hörpu frá Hofsstöðum. Hún hlaut 8,25 í aðaleinkunn þegar hún var sýnd í kynbótadómi árið 2003. Dæmd afkvæmi Nótu eru Sónata (ae. 8,43), Trymbill (ae. 8,57), Taktur (ae. 8,26), Hending (ae. 8,15) og Tónlist (ae. 7,95). Ræktandi og eigandi Nótu er Lára Kristín Gísladóttir.

Hending frá Flugumýri er með 117 í aðaleinkunn kynbótamats. Hún er fædd 1992 undan Kveik frá Miðsitju og Hörpu frá Flugumýri. Hún hlaut 8,08 í aðaleinkunn þegar hún var sýnd í kynbótadómi árið 1998. Dæmd afkvæmi Hendingar er Ófeig (ae. 8,02), Hreimur (ae. 8,27), Hrókur (ae. 8,21), Hrannar (ae. 8,85) og Hugur (8,01). Ræktandi Hendingar er Sigurður Ingimarsson en eigendur Eyrún Anna Sigurðardóttir og Páll Bjarki Pálsson.

Þá hefur hryssan Glás frá Votmúla fengið 117 aðaleinkunn kynbótamats og á 6 dæmd afkvæmi og uppfyllir því lágmarkskröfunar. Glás fórst í byrjun árs og hlýtur því ekki heiðursverðlaun. Glás var undan Baldri frá Bakka og Garúnu frá Stóra-Hofi. Dæmd afkvæmi hennar eru Gígja (ae. 7,84), Gremja (ae. 8,07), Glóð (ae. 8,00), Pjakkur (ae. 8,27), Gyðja (ae. 7,99) og Garún (ae. 8,00). Ræktandi Glásar var Albert Jónsson en eigendur hennar voru Baldur Óskar Þórarinsson, Gunnar Andrés Jóhannsson og Vigdís Þórarinsdóttir.