miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðurlöndin sameinast um HM 2015

26. september 2012 kl. 12:07

Norðurlöndin sameinast um HM 2015

Norðurlöndin ætla að sýna sameiningarmátt sinn við framkvæmd Heimsmeistaramótsins 2015. Gestgjafarnir frá Danmörku og landssambönd allra Norðurlandanna skipuleggja mótið í sameiningu. Formlegt samstarf þjóðanna var undirritað 4. ágúst síðastliðinn á Norðurlandamótinu í Eskiltuna í Svíþjóð og hefur stýrihópur Norðurlanda nú þegar hafið störf. Hann er skipaður fulltrúum frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Færeyjum. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem Norðurlöndin vinna saman á þennan hátt.

 
Samstarfið mun vonandi gefa Heimsmeistaramótinu, sem og Íslandshestamennskunni í heild, byr undir báða vængi. „Heimsmeistaramótið verður sífellt umfangsmeira. Einstaka þjóðir eiga erfiðara um vik að halda gott mót,“ segir Göran Montan, formaður sænska Íslandshestasambandsins og fulltrúi Svía í stýrihópnum. Heimsmeistaramótið 2015 verður í Herning, Danmörku, á sama stað og Norðurlandamótið 2014. Göran segir að öll löndin muni sameiginlega sjá um kynningu á mótinu. „Öll löndin verða kynnt eins, jafnvel þó Danmörk hýsi viðburðinn. Herning er kjörinn staður til mótahalds. Hér höfum við til margra ára haft skipulagt svæði til sýninga, það liggur miðsvæðis og nærri flugvellinum í Billund.“
 
Even Heland, formaður norska Íslandshestasambandsins og fulltrúi Noregs í hópnum, tekur í sama streng. „Okkur langar sérstaklega að búa til íþróttaviðburð og í leiðinni vísa til hins góða norræna samstarfs. Í Herning mun fólk á öllum aldri, frá öllum löndunum, hittast og deila bæði áhuga á íslenska hestinum, menningu og góðum vinskap.“
 
Á meðfylgjandi mynd má sjá stýrihópur hins norræna samstarfs. Frá vinstri: Birgitte Jensen fulltrúi Danmerkur, Even Heland fulltrúi Noregs, Göran Montan fulltrúi Svíþjóðar, Magnus Tiderman fulltrúi Finnlands og Haraldur Þórarinsson fulltrúi Íslands. Á myndina vantar David Nordendal frá færeyska Íslandshestasambandinu.