þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðlenska hestaveislan

24. apríl 2017 kl. 16:35

Sirkur frá Garðshorni á Þelamörk og Agnar Þór

Ákaflega vel heppnuð og skemmtileg helgi í Eyjafirði

Nú er yndislegri hestaveislu lokið sem stóð yfir frá föstudegi til sunnudagsmorguns. Veislan hófst á frábærri sýnikennslu frá Huldu Gústafsdóttur á Hnokkasyninum Val frá Árbakka. Hulda er ákafalega góður kennari sem kemur hlutum frá sér á skemmtilegan og fræðandi hátt. Áhorfendur voru himinlifandi eftir þessa skemmtilegu kennslustund.

Fákar og fjör var svo um kvöldið. Sýningin var fjölbreytt og skemmtileg. Fysta atriðið var afhending bikarsins Bjartasta vonin. Í ár var það Bjarki Fannar Brynjuson sem hlaut þann heiður. Bjarki Fannar er efnilegur knapi úr hestamannafélaginu Hring á Dalvík. Komu þau saman í salinn Bjarki Fannar og Kristín Ellý sem var Bjartasta vonin 2015.

Næst komu æfð atriði í bland við hryssur, stóðhesta, ræktunarbú. Klárhross og alhliðahross. Karlakór Eyjafjarðar söng nokkur lög.

Bæði börnin úr Létti og unglingarnir voru með æft atriði. Það var gaman að sjá að mikið hefur verið æft og mikil metnaður í atriðunum.

Guðmundur Hjálmarsson sýndi okkur reiðhestakost sinn og er óhætt að segja að kallinn er mjög vel ríðandi.

Afkomendur Magnúsar Jóhannssonar eða Hóla-Manga eins og flestir þekkja hann undir komu og heiðruðu minninu þessa frábæra hesta og söngmanns.

Landsmótssigurvegararnir Kristján Árni og Sjéns frá Bringu og Gústaf Ásgeir og Póstur frá Litla Dal sýndu okkur flottar sýningar.

Augljóst er að hrossaræktin er enn í miklum blóma en við fengum að sjá hross frá Litlu Brekku, Efri Rauðalæk og frá Atla Sigfússyni sem kennir sína ræktun við Akureyri.

Snorri Dal og Anna Björk komu með flotta sýningu með dætrum sínum þeim Kötlu Sif og Söru Dís. Það var frábært að sjá hvað stelpurnar eru góðir knapar og með frábæran hestakost.

Að venju var keppt í skeiði og sigraði Svavar Hreiðarsson á Flugari, í öðru sæti var Elvar Einars og Segull og Ragnar Stefáns og Hind í því þriðja. Mikil tilþrif eru oft í skeiðinu og má segja að skeiðdrottningin hafi stolið senunni með snilldar skeiði og töktum.

Hinrik Bragason og Pistill voru frábærir sem og Daníel Jónsson og Nípa frá Meðalfelli. Nípa er með 9,05 fyrir hæfileika.

3 afkvæmi Óperu frá Dvergstöðum voru sýnd en það voru þeir Viti undan Smára frá Skagaströnd, knapi Mette Mannseth, Vaki undan Óði frá Brún, knapi Sigríður Vaka Víkingsdóttir og Vegur undan Seiði frá Flugumýri, knapi Guðmundur Björgvinsson. Víkingur Gunnarsson fékk hestagullið Hörpu frá Torfastöðum lánaða hjá þeim hjónum Hómgeiri Valdemarssyni og Birnu Björnsdóttur og hélt henni undir Kveik frá Miðsitju og eignaðist þá Óperu.  Ópera hefur verið einstaklega farsæl í hrossarækt þeirra Víkings og Guðrúnar Stefánsdóttur, fyrst á Hólum í Hjaltdal en síðar á bænum Kagaðarhóli í A-Húnavatnssýslu.

Viðar Bragason sýndi hestagullið Lóu frá Gunnarsstöðum en Lóa er gríðarlega hágeng og skrefmikil hryssa.

Guðmundur og Helga sýndu 6 afurða góðar hryssur í þeirra eigu. Það var mjög gaman að sjá þessar litfögru og hæfileikaríku hryssur sem þau hjónin eiga en þau eru mikið fyrir skjótt og er það markmið þeirra að eignast eina nýja skjótta á hverju ári

Eyfirsku gæsirnar lokuðu svo kvöldinu með skemmtilegri munsturreið undir dúndrandi lófataki.

Á laugardagsmorgun fóru um 80 manns í rútuferð. Byrjað var í Líflandi sem bauð uppá léttar veitingar og var létt yfir mannskapnum.

Þaðan lá leiðin í Ferðaþjónustuna í Skjaldarvík þar sem rekið er hótel í yndislegri náttúru.  Í Skjaldarvík er frábær veitingastaður en einnig er þar hestaleiga og buggy-bíla ferðir. Skjaldarvíkur hjónin buðu gestunum uppá einhverja þá bestu mexíkósku kjötsúpu sem smökkuð hefur verið.

Eftir Skjaldarvík var farið í Skriðu þar sem kíkt var í hesthúsið, hestum klappað, svínum sleppt út og slegið var á létta strengi en Jakob Jónsson greip í gítarinn við mikinn fögnuð mannskaparins og svínanna. 

Að lokum var farið í Garðshorn. Í Garðshorni var mikil spenna í loftinu þar sem Birna var komin með hríðir og fór það þannig að þau heilsuðu uppá mannskapinn, sýndu okkur Adrían frá Garðshorni sem er feykilega fallegur Hágangssonur sem þau ræktuðu undan Eldingu frá Lambanesi en þar bjuggu þau áður. Þegar Agnar var búin að sýna okkur hestinn brunaði hann með hana Birnu sína inn á Akureyri og eignuðust þau fallega litla stúlku rétt fyrir klukkan 21.

Á laugardagskvöldið var hin margrómaða Stóðhestaveisla sem Hrossarækt.is stendur fyrir. Eins og allir vita styrkir Hrossarækt á ári hverju gott málefni og í ár styrkja þau Umhyggju – félag langveikra barna. Enn er hægt að hringja inn í númerin 903-7111 fyrir 1000 kr. – 903-7112 fyrir 3000 kr. – 903-7113 fyrir 5000 kr. Allir sem hringja inn lenda í potti og geta unnið folatoll undir einn af þessum gæðingum, Arð frá Brautarholti, Spuna frá Vesturkoti, Ölni frá Akranesi, Organista frá Horni eða Sirkusi frá Syðra Garðshorni.

Mikið var um dýrðir og held ég að hægt er að fullyrða að þetta er ein sterkasta Stóðhestaveisla sem haldin hefur verið fyrir norðan. Mikil fjölbreytni var í hestunum sem sýndir voru sem sumir eru orðnir heimsfrægir en aðrir að taka sín fyrstu spor fyrir almenningi.

Egill Már Þórsson kom með Rosa frá Litlu Brekku, Rosi er ungur hestur undan Gígjari frá Auðsholtshjáleigu og Röskvu frá Hólavatni. Með Agli var Björg Ingólfsdóttir með Ísak frá Dýrfinnustöðum sem er undan Hróð frá Refsstöðum og List frá Vatnsleysu. Það var frábært að sjá þessa ungu og efnilegu krakka á þessum flottu stóðhestum.

Magnús Bragi kom með 6 afkvæmi Óskasteins frá Íbishóli og var gaman að sjá þessi fallegu hross og ljóst er að Óskasteinn er mikill gleðigjafi og gefur falleg og hæfileikarík hross.

Sigursteinn Sumarliðason átti flotta sýningu á Háfeta frá Hákoti sem er undan margfalda tölt heimsmeistaranum Hnokka frá Fellskoti og Ósbrá frá Hákoti. Háfeti er glæsilegur hestur sem minnir mikið á Hnokka.

Bræðurnir frá Bergi þeir Hængur setinn af Siguroddi Péturs og Sægrímur setinn Önnu Dóru sýndu meistaratakta á gólfinu. Þeir eru sammæðra undan Hríslu frá Naustum og er Hængur undan Álffinni frá Syðri-Gegnishólum en Sægrímur undan Sæ frá Bakkakoti. Sægrímur verður í hólfi í Litla Dal í Eyjafirði í sumar. Sægrímur var sýndur á Landsmótinu á Hólum síðasta sumar aðeins 4 vetra og hlaut hann 9 fyrir tölt og fyrir vilja og geðslag.

Efri-Rauðalæks hestarnir Börkur og Öngull komu heim í fjörðinn og var ákaflega gaman að sjá þá félaga Öngull og Ólaf Ásgeirs og Börk og Guðmund Björgvins dansa um salinn á þessum góðu hestum.

Daníel Jónsson kom með hinn frábæra hest Árblakk frá Laugasteini. Árblakkur er undan Ágústínusi frá Melaleiti sem er Kolfinnssonur og Áróru frá Laugasteini sem er undan Roða frá Múla. Árblakkur er með 8,69 fyrir kosti þar af með 9 fyrir tölt, skeið og vilja og geðslag. Hann er með 8,5 fyrir stökk og fegurð í reið. Hann hefur hlotið 8,45 í aðaleinkunn.

Fróði frá Staðartungu mætti með Jóni Pétri Ólafssyni og sýndi okkur að hann hefur engu gleymt frá því hann vann A flokkinn á Landsmótinu í Reykjavík 2012. Með honum kom litli bróðir hans Adrían frá Garðshorni sem Þór Jónsteinsson sat í fjarveru Agnars Þórs sem var á fæðingardeildinni með Birnu sinni. Báðir þessir hestar eru miklir gæðingar og verður gaman að sjá hvað Adrían fær í kynbótadómi næsta sumar.

Þau feðgin Snorri Dal og Sara Dís komu með 2 gæðinga þá Sæþór frá Stafholti sem er brúnskjóttur glæsihestur undan Hákoni frá Ragnheiðarstöðum og Bendingu frá Kaldbak og hann Íslending frá Dalvík sem er undan Krák frá Blesastöðum 1A og Söru frá Dalvík.

Systkinin Krókus frá Dalbæ setinn af Magnúsi Braga Magnússyni og Fjóla frá Dalbæ setin af Sigursteini Sumarliðasyni voru kraftmikil og glæsileg á gólfinu. Krókus sýndi okkur frábærann skeiðsprett í lokin.

Siguroddur kom einnig með Stegg frá Hrísdal sem er einstaklega litfagur hestur með mikla útgeislun. Steggur er með 9 fyrir tölt og hægt tölt ásamt 9 fyrir vilja og geðslagi og fegurð í reið. Steggur naut sín vel í höllinni og var unun að horfa á hann.

Næstur á gólfið var Skapti Steinbjörnsson með túrbó töltarann Odda frá Hafsteinsstöðum. Oddi er ógleymanlegur hestur sem gerði það gott á Landsmótinu á Hólum og varð þar annar í B úrslitunum í B flokki.  Oddi er klárhestur með 8,53 í aðaleinkunn. Þar af er hann með 9,5 fyrir tölt, brokk og vilja og geðslag. 9 fyrir stökk, fegurð í reið og hægt tölt.

Líney María kom með 2 gæðinga þá Árvak frá Tunguhálsi og Þrótt frá Akrakoti. Þeir eru báðir í hennar eigu. Hér er mynd af Árvaki

Hrókur frá Hjarðartúni kom næstur og var hreinlega frábær. Steingrímur og Hrókur dönsuðu um gólfið og sýndu þeir vel hvers vegna Hrókur er með allar þessar níur. En hann er með 9 fyrir tölt, hægt tölt, hægt stökk, fegurð í reið og vilja og geðslag.

Aftur komu þeir félagar Sigursteinn og Magnús Bragi saman inn á gólfið og í þetta sinn voru það Snillingur frá Íbishóli og Svörður frá Skjálg sem þeir mættu með. Báðir þessir hestar eru mjúkir og góðir töltarar sem vekja mikla athygli þegar þeir koma fram.

Snillingur er undan Vafa frá Ysta Mó og Ósk frá Íbishóli.  Fyrir kosti hefur Snillingur hlotið 8,5 fyrir allt nema stökk og fet þar sem hann er með 8. Svörður er undan Orra frá Þúfu og Skjönn frá Skjálg. Hann er með 8,53 fyrir kost, þar af með 9,5 fyrir vilja og geðslag og 9 fyrir tölt og stökk.

Daníel mætti með gæðinginn Arion frá Eystra Fróðholti. Það var frábært að horfa á þennan magnaða gæðing sýna okkur 10 töltið sitt í salnum. Mikil fagnaðar læti brutust út þegar Arion fór sinn sprett í gegnum húsið enda með 9,5 fyrir skeið.

Þegar síðasti hesturinn Sirkus frá Garðshorni kom í salinn ætlaði allt að verða brjálað þegar sást að hinn nýbakaði faðir Agnar Þór sat hestinn. Agnar og Sirkus áttu frábæra sýningu, stoltið og gleðin geisluðu af Agnari. Við óskum Agnari og Birnu innilega til hamingju með fallegu dömuna sína.

Við þökkum öllum þessum frábæru knöpum og hesteigendum fyrir komuna og við þökkum þeim sérstaklega vel fyrir komuna sem komu lengra að. Við þökkum gestgjöfum okkar á laugardaginn kærlega fyrir og við þökkum sjálfboðaliðum Léttis fyrir frábær störf og áhorfendum innilega fyrir komuna.

Án ykkar allra er þetta ekki mögulegt.

 

Með bestu kveðju, Viðburðanefnd Léttis.