sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Náttúrureiðmaður á brokki

28. janúar 2011 kl. 09:29

Siggi Sig á Loka frá Selfossi. Eins og sjá má eru áhorfendastúkurnar fullskipaðar.

Siggi Sig vinnur fjórganginn eina ferðina enn

Það er stundum sagt um aula að þeir séu náttúrureiðmenn á brokki. Það verður þó ekki sagt um Sigurð Sigurðarson í því samhengi. Hann er hins vegar náttúrureiðmaður á þeirri gangtegund eins og hinum fjórum. Það er hann rækilega búinn að sanna, en hann sigraði fjórgang í Meistaradeild í hestaíþróttum í þriðja sinn í gærkvöldi.

Það var greinilega komið mikið hungur í hestamenn, bæði knapa og áhorfendur, þegar blásið var til leiks. Ölfushöllin var troðfull af fólki og hvert einasta bílastæði upptekið. Afar góð stemmning var í húsinu og greinilegt að hestamenn eru þakklátir fyrir að vera búnir að endurheimta sinn heilbrigða ísleska hest.

Eins og áður sagði er Sigurður ekki óvanur því að vinna þessa grein í Meistaradeildinni, hefur áður unnið á Suðra frá Holtsmúla 2009 og Yl frá Akranesi 2008. Nú sat hann hestinn Loka frá Selfossi, sem er stóðhestur eins og hinir tveir. Loki er undan Smára frá Skagaströnd og Surtlu frá Brúnastöðum, Váksdóttur frá Brattholti. Ræktandi og eigandi er Ármann Sverrisson. Sigurður og Loki urðu í þriðja sæti í fjórgangi í fyrra.

Sigurðu var efstur eftir forkeppnina með 7,57 og hélt sætinu í A úrslitum með 7,63. Segja má að íslenski gæðingurinn hafi sigrað að þessu sinni. Loki er ekki dæmigerður fjórgangari upp á evrópskan máta, heldur mjúkur og örviljugur reiðhestur, stór og glæsilegur. Gangtegundurnar eru hreinar og góðar, en hesturinn er mjúkur á þeim öllum. Reiðmennska SIgurðar var góð, ásetan ekki fögur, en reiðmennskan bragðmikil. Hann reið við hringamél, einn fárra knapa, og hesturinn var í meginatriðum sáttur.

Hulda Gústafsdóttir var í öðru sæti á Kjuða frá Kirkjuferjuhjáleigu. Hesturinn var mjög góður á brokki og stökki, en er greinilega mistækur á tölti, stundum frjáls og framtakssamur en í annan tíma síðri. Hinrik Bragason á Sigri frá Hólabaki og Sigurbjörn Bárðarson á Penna frá Glæsibæ skiptu með sér þriðja til fjórða sætinu, sem Sigurbjörn vann í hlutkesti. Sigur fór sérlega vel hjá Hinrik, mjúkur í hálsi og sáttur í beisli, kreppti vel hækilinn. Á gott með að hvolfa sér, eins og stundum er sagt á hestamáli. Penni er stór og glæsilegur, tinnusvartur. Hann er með upplagðar gangtegundir í fjórgang en var ekki sáttur í beisli. Bergur Jónsson á Vakari frá Ketilsstöðum var í fimmta sæti og Sigursteinn Sumarliðason á Ölfu frá Blesastöðum í því sjötta.