föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nálgun reiðkennara í kennslu og samskipti hestafólks

17. júlí 2015 kl. 09:21

Hugleiðingar formanns Félags tamningarmanna.

"Ég starfaði hjá SÁÁ við ráðgjöf í tæp 6 ár og fór í gegn um viðamikið, flott nám þar. Starfaði við ráðgjöf alkóhólista og fíkla á ýmsum stigum sjúkdómsins,  ráðgjöf við foreldra og aðstandendur alla.  Þar lærði ég margar sálfræðikenningar sem notaðar eru til að ná árangri í bata við fíkn og fleiru í lífinu sjálfu.

Gömul nálgun sem snérist um að brjóta niður og byggja upp einstaklinginn, var löngu úrellt þegar ég kom til starfa.  Gríðarlega mikil áhersla var lögð á að hver einstaklingur héldi virðingu sinni. Hverjum einstakling var hjálpað að auka von, áhuga, sjálfstraust og finna eldmóðinn í sjálfum sér. Einstaklingarnir voru mjög misjafnir, kvíðnir, hræddir, minnimáttar, fúlir, reiðir, hrokafullir, ógnandi, opnir, lokaðir o.s.v.f.r.v. Okkar vinna var að finna leið og kveikja áhuga og von hjá öllum.(en ALDREI tala niður til einstaklingsins). 

Mér finnst ég mjög rík í dag í starfi mínu sem reiðkennari, dómari, þjálfari að hafa farið í gegnum námið þar, öðlast reynslu og færni í starfi, og fá að vinna með eins frábæru teymi og þar starfaði. Í reiðkennslu erum við að kenna knapa og svo hesti sem skynjar andlegt og líkamlegt ástand knapans. Þannig að það segir sig sjálft að knapanum þarf að líða vel í kennslunni til að ná árangri með hestinn sinn.

Í reiðkennaranámi mínu var lögð mikil áhersla á slökun, yfirvegun, traust og andlegt jafnvægi hestsins til að ná árangri. Spenntur, kvíðinn hestur á erfitt með að læra og meðtaka.

Minni áherlsa var lögð á ró, yfirvegun og andlegt jafnvægi knapans. Hesturinn er gríðarlega næmur og skynjar klárlega andlegt ástand knapans. Ég sjálf upplifði í mínu námi að kennarinn minn sem ég hafði mikið álit á sagði dag eftir dag að hestur minn væri spennuhundur, uppfullur af draugum tamningu minnar.  Ég var þarna stödd með minn uppáhaldshest og reyndi að útskýra að ég þyrfti að fá að fara út í venjulegan íslenskan reiðtúr til að losa um uppsafnaða orku og þá myndi hann gera allt fyrir mig, hesturinn minn er óvenjulega orkumikill og ofur næmur.  Kennarin minn sem ég leit upp til glotti, hristi hausinn og sagði að ég þyrfti bara að fara í fleiri og enþá minni bauga inni í reiðhöll, gerði lítið úr hugmyndum mínum um góðan útreiðartúr,  og gekk á braut.

Það komu margar spurningar upp í huga minn eftir þessa upplifun, þar sem ég var að læra reiðkennslufræði.  Leið mér betur eftir svör kennarans? Hlakkaði ég til að vakna og mæta í næsta reiðtíma, eða langaði mig í fyrsta skipti á ævinni að slökkva á klukkunni og draga sængina yfir haus? Efaðist ég um sjálfan mig sem tamningamann? Efaðist ég um gæði uppáhaldshestsins míns? Jókst eldmóður minn og sjálfstraust? Fann hesturinn minn fyrir vonbrigðum, spennu og kvíða frá mér næstu daga?
Spurði ég sjálfan mig hvort ég yfir höfuð vildi vinna við hestamennsku?

Spurði ég sjálfan mig hvort ég yfir höfuð vildi vinna við hestamennsku? Mín skoðun er sú að í reiðkennaranáminu mínu hafi verið misskilningur  um um hvað faglegt bil milli reiðkennara og nemenda er.  Oft upplifði ég samfélagið á skólanum að sumir kennarar vildu fá óttablandna virðingu frá nemendum og allir tippluðu á tánum, þorðu ekki að tjá sig af ótta við viðbrögð. Andrúmsloftið var oft þvingað og það vantaði ástríðu og gleði fyrir verkefnunum.  

 Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvað faglegt bil milli nemanda og reiðkennara er.  Vera kurteis, hvetjandi, vingjarnlegur, uppörvandi, bjóða fólk velkomið, vera góður hlustandi, hafa trú á nemandanum, hafa metnað til að leggja sig fram um að kveikja áhuga og eldmóð:) Það er hægt að segja á kurteisan, vingjarnlegan hátt að ég sé upptekin núna. Eða útskýra að margar leiðir séu að sama markmiði og ekki sé allt rangt sem nemandinn gerði eða lærði áður. Alltaf þarf að passa að skilja ekki við nemandan sinn í vonleysi. Reiðkennsla er mikil áskorun, mikilvægast er að knapin sé rólegur í andlegu og líkamlegu jafnvægi, svo að hann geti haft sömu áhrif á hestinn sinn, þá er kominn grunnur að framhaldi. Ef knapi er stressaður meðtekur hann ekki það sem er verið að kenna honum, það sama á við um hestinn. Því er gríðalega mikilvægt að nemandi sé ekki óöruggur gagnvart kennara sínum.

Fagmaður býr yfir, menntun, þekkingu og reynslu.
Fagmaður veit að engin er fullkomin og er frjáls fyrir sínum eigin veikleikum.
Fagmaður er opin, áhugasamur og endurmenntar sig reglulega til að halda áhuga og eldmóð í sjálfum sér.   Fagmaður biður afsökunar ef hann hefur verið illa fyrir kallaður eða hleypur á sig.
"Frægur" knapi/reiðkennari/dómari/hestamanneskja er ósköp venjuleg manneskja eins og við öll, sem á sér væntingar, vonir, upplifir gleði, sorgir og hefur tilfinningar.
       
Stundum þegar ég hugsa um hestasamfélagið okkar í heild sinni finnst mér við vera ein risavaxin meðvirk fjölskylda. Þorum ekki að segja hug okkar af ótta við að styggja einhvern.  Kannski ættum við öll að fara í einhverskonar meðferð  til að vinna bug á stjórnsemi,meðvirkni, hroka og ótta. Og læra falleg samskipti af heiðarleika og einlægni. Rýna svo til gagns án þess að níða niður persónur, passa að halda okkur við málefnið hverju sinni,  og efla okkar hestasamfélag til vegs og virðingar.
Og...mikilvægast af öllu er að hafa gaman af, finna ástríðuna og njóta hestamennskunnar:)"
Kær kveðja Súsanna Sand Ólafsdóttir formaður FT