miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Næsti Landsráðunautur í hrossarækt

odinn@eidfaxi.is
21. nóvember 2014 kl. 12:06

Kristinn Hugason.

Helst hafa verið nefnd þrjú nöfn líklegra umsækjenda.

Nú þegar ljóst er að Guðlaugur Antonsson fyrrum Landsráðunautur mun ekki snúa aftur til starfa eftir ársleyfið sem rennur út um áramót velta menn fyrir sér hver taki við stöðunni.

Í raun er ekkert til sem heitir Landsráðunautur heldur heitir starfið í dag Ábyrgðarmaður hrossaræktarsviðs RML. Helst hafa verið nefnd þrjú nöfn en það eru Dr. Elsa Albertsdóttir Lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Dr. Kristinn Hugason fyrr um Landsráðunautur og starfsmaður Atvinnuvegaráðuneytisins og Þorvaldur Kristjánsson

Elsa er búfræðingur frá Hólaskóla og útskrifaðist sem þjálfari og Reiðkennari árið 1998. Hún lauk B.Sc cand agro. frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, 2001 og Licentiate í erfða- og kynbótafræði frá Sænska Landbúnaðarháskólanum árið 2007.

Þorvaldur er einnig búfræðingur frá Hólum og útskrifaðist sama ár og Elsa úr LBHÍ en lauk Master í kynbótafræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2005. Hann er nú að ljúka doktorsnámi. Þorvaldur starfar með námi sem kennari við Landbúnaðarháskólann.

Kristinn útskrifaðist frá Hvanneyri árið 1983  og M.Sc. prófi í kynbótafræði frá Uppsala í Svíþjóð árið 1986. Hann lauk MA prófi Stjórnsýslufræði árið 2001 og hefur gengt ýmsum trúnaðarstöðum auk þess að hafa starfað sem Landsráðunautur um árabil.

Ekki er ljóst hver sækir um stöðuna en auglýsing RML er eftirfarandi:

Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins óskar eftir að ráða starfsmann – hrossaræktarrráðunaut – til að taka að sér starf ábyrgðarmanns hrossaræktar hjá RML. Ráðningin er til eins árs með möguleika á framlengingu.

Ábyrgðarsvið, menntun og hæfniskröfur: 

·         Skal hafa lokið kandidatsprófi í búvísindum eða annari sambærilegri menntun. Framhaldsmenntun með sérhæfingu á sviði hrossaræktar er æskileg.

·         Er leiðandi í starfi faghóps í hrossarækt og ber ábyrgð á framgangi og skipulagi fagstarfs innan hópsins.

·         Mun bera ábyrgð á og tryggja, í samstarfi við faghóp, að framkvæmd ræktunarstarfs og skýrsluhalds sé í samræmi við sett ræktunarmarkmið.

·         Mun hafa yfirumsjón með skipulagningu kynbótasýninga, samræmingu dómara og öðru sem viðkemur framkvæmd kynbótasýninga.

·         Vinnur að þróun og sölu á ráðgjöf á landsvísu og á það jafnt við um sérhæfða ráðgjöf sem og aðkomu að heildstæðri og þverfaglegri ráðgjöf í samstarfi við aðra starfsmenn RML.

·         Situr í fagráði í hrossarækt og kemur fram sem ræktunarleiðtogi íslenska hestsins.

Við leitum að einstaklingi með brennandi áhuga fyrir hrossarækt og staðgóða þekkingu á kynbótastarfinu eins og það er rekið í dag. Viðkomandi þarf að hafa metnað, frumkvæði og leiðtogahæfileika sem nýtast til að efla búgreinina.

Lögð er áhersla á skipulögð vinnubrögð og hæfni í mannlegum samskiptum.