laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Myndband - Úrslit í fjórgangi Meistaradeildar VÍS-

12. febrúar 2010 kl. 12:03

Myndband - Úrslit í fjórgangi Meistaradeildar VÍS-

Það er ánægjulegt hve margir sækja mót Meistaradeildar VÍS en húsið var satt að segja stútfullt í gærkvöldi þrátt fyrir stækkun stúkunnar. Rétt er að geta þess að miklar endurbætur hafa verið gerðar á reiðhöllinni á Ingólfshvoli og er allt húsið meira aðlaðandi fyrir vikið en það var. Þetta án efa örvar fólk til þess að heimsækja deildina. Gólfi reiðsalarins hefur verið breytt, lag af skeljasandi sett yfir það og var greinilegt að hestarnir kunnu að meta þá breytingu. Nú voru þeir ekki að stytta skrefið á skammhliðum vallarins eins og áberandi var áður.

Sýningarnar
Mikil breidd var í sýningum fjórgangs og hestakosturinn misgóður. Knapar eru einnig mis mikið reyndir og bera sumar sýningarnar þess vitni.
Það er greinilega ekki auðvelt að taka þátt í mótaröð af þessari gráðu en það útheimtir mikinn hestakost sem margir knapanna eðlilega hafa ekki á sínum snærum. Því er töluvert um að knapar ríði á lánshestum en það hefur að sjálfsögðu áhrif á árangurinn.
Mikið var af nýjum hestum í gær og var skemmtilegt að sjá að ákveðin endurnýjun er í gangi á fjórgangsvængnum hjá okkur. Vonandi eiga einhverjir af þessum nýju eða nýlegu hestum eftir að þróast þannig að við eigum kannski von á að eiga sterka fjórgangs kandídata til að senda á HM í náinni framtíð.

Dómar
Dómarar voru að mörgu leiti að standa sig þokkalega á þessu móti en þó aðeins mishittnir. Ákveðnir gallar á sýningum fljóta í gegnum kerfið óáreittir og finnst manni breidd sýninganna ekki koma nægilega vel fram í einkunnagjöf. Manni virðist sem dómarar eigi til dæmis erfitt með að dæma stökk þar sem ofuráhersla virðist vera orðin á hæð afturfótaskrefs en mýktin og hæð framfótaskrefs orðin víkjandi. Brokkið dæmdist hinsvegar nokkuð vel fannst undirrituðum.
Hæga töltið er alltaf aðeins vandamál og þyrftu dómarar að leggjast vel yfir það verkefni. Þróun dóma er endalaust verkefni og er vonandi að vel takist til í því.

Stemningin
Það var gaman í Ölfushöllinni í gær. Fólk var með á nótunum og í sumum hlutum úrslita mátti líkja stemningunni við þá stemningu sem myndast á handboltaleik. Áhorfendur hvöttu sína menn og myndaðist mikil stemning á áhorfendapöllunum sem örugglega gerði sitt fyrir keppendur. Nú bíður maður spenntur eftir næsta móti Meistaradeildar VÍS.

Hér getur að líta stutt myndbrot af A-úrslitum en RUV mun gera mótunum nánari skil í sjónvarpsþáttum sem sýndir verða á þeirri stöð í framhaldinu.

Trausti Þór Guðmundsson