fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Munu Jakob og Árborg endurtaka leikinn?-

7. febrúar 2012 kl. 11:51

Munu Jakob og Árborg endurtaka leikinn?-

Jakob Svavar Sigurðsson kom sá og sigraði í gæðingafimi Meistaradeildarinnar í fyrra. Hann kom þá fram með tölthryssuna Árborgu frá Miðey og sýndi hana af miklu öryggi og fagmennsku. Á fimmtudaginn munu Jakob Svavar og Árborg mæta aftur til leiks og verja titil sinn.

„Markmiðið er að koma fram með fallega sýningu. Árborg kann orðið töluvert af æfingum sem hún gerir vel og hún er auk þess mikill gæðingur og hefur allt til að vera í fremstu röð,“ segir hann.

Gæðingafimin er mikil áskorun fyrir knapana þar sem samspil manns og hest skiptir miklu máli. Dómarar horfa til fjölda og erfiðleika æfingana og hvernig keppendaparinu tekst til, hvernig æfingar blandast saman við gangtegundir, fjölhæfni og styrkleiki gangtegunda auk flæði sýningarinnar. Knapar þurfa að sýna að lágmarki þrjár gangtegundir og fimm fimiæfingar og er einungis ein skylduæfing, en hún er opinn sniðgangur á tölti. Lengd sýningar má vera að hámarki þrjár og hálf mínúta.

„Ég hef farið með ólíka hesta í gæðingafimi. En að upplagi þurfa þeir að vera þjálir og mjúkir. Þetta er nokkuð frjálst fyrirkomulag og því er hægt að setja sýninguna upp á ýmsa vegu. Það er það sem gerir greinina skemmtilega, maður getur stillt sýningarnar upp með ólíka hesta í huga. Mig hefur bæði gengið vel með gammaviljuga hesta og eins mjúka fima sporthesta,“ segir Jakob Svavar sem keppir fyrir lið Ármóta/ Top-Reiter.

Gæðingafimi Meistaradeildar fer fram í Ölfushöllinni á fimmtudag kl. 19.30 en sent verður beint frá mótinu hér á vef Eiðfaxa.