föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Munið að skrá mörkin og þar með frostmörkin

9. febrúar 2012 kl. 14:00

Munið að skrá mörkin og þar með frostmörkin

Markaskrár eru gefnar út um land allt á átta ára fresti ,samkvæmt lögum og reglum ,og er 2012 útgáfuár.  Undirbúningur að útgáfunni hófst í haust og eru markaverðir um land allt að safna mörkum til skráningar í samtals 22 markaskrár og Bændasamtökin Íslands munu síðan gefa út Landsmarkaskrá 2012.  Áformað er að hún verði aðgengileg á internetinu í árslok 2012. Reiknað er með töluverðri fjölgum frostmarka en fækkun eyrnamarka fyrir hross.

Á seinni árum hefur færst í vöxt að hrossabændur og hestamenn taki upp frostmörk fyrir hross og láti skrá þau í markaskrár eins og eyrnamörk.  Eftir að farið var að örmerkja öll ásett folöld vilja margir hafa sýnileg auðkenni á hrossum sínum  enda margir hættir að eyrnamarka folöldin.  Frostmörkin eru venjulega sett á háls,undir fax,eða á bak,undir hnakk, og eru þau með ýmiss konar áletrun,allt frá tölustöfum og bókstöfum yfir í tákn eða myndir (lógó).  Til að koma í veg fyrir sammerkingar á landsvísu annast undirritaður úthlutun frostmarka en síðan sjá markaverðir  um skráninguna,hver í sínu markaumdæmi.  Að því loknu fara þau í landsmarkaskrána hjá bændasamtökunum og hefur undirritaður einnig umsjón með þeim þætti.

Frostmörkin hafa sérstakt gildi þar sem hross frá mörgum eigendum ganga saman,hvort sem er í heimalöndum eða afréttum.  Notkun þeirra fer vaxandi,bæði í ræktunarhrossum í sveitum og reiðhestum í þéttbýli.  Margir eiga erfitt með að þekkja t.d. brún hross í stórum hópum og í hrossaréttum koma frostmörkin að góðu gagni,svo að dæmi séu tekin.  Bagalegt er þegar verið er að frostmerkja hross án  þess að mörkin séu skráð með formlegum hætti í markaskrár.  Því skora ég á alla sem eru að nota óskráð frostmörk að láta skrá þau nema aðrir séu nú þegar eigendur þeirra.  Óskráð frostmörk hafa ekki mikið gildi og ættu ekki að sjást neins staðar.  Þá eru þeir sem hafa átt frostmörk í skrám minntir á að láta endurskrá þau eins og önnur mörk.

Upplýsingar um þessi mál veita markaverðir um land allt en sumir þeirra eru að ljúka skráningunni um þessar mundir. Einnig má hafa samband við mig um þessi mál í símum 563-0300 og 563-0317 og tölvupósti  ord@bondi.is

Ólafur R. Dýrmundsson
Bændasamtökum Íslands