mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mótaröð Rangárhallarinnar heldur áfram

28. febrúar 2011 kl. 15:53

Mótaröð Rangárhallarinnar heldur áfram

Rangárhöllin stendur fyrir mótaröð þriggja keppna, en sú fyrsta var fjórgangskeppni sem haldin var 13. febrúar síðastliðinn. Sú keppni heppnaðist ákaflega vel að mati mótshaldara en Mídas frá Kaldbak sigraði þá með 7,67 í einkunn og voru efstu fimm hestar allir með yfir 6,70 í einkunn.

Næsta mót er fimmgangskeppni sem verður haldin sunnudaginn 6. mars.

“Fimmgangurinn verður settur upp eins og fjórgangurinn þ.e. fimm dómarar, einn flokkur og einn inn á braut í einu, þannig að hver og einn ræður sínu prógrammi.
 
Þriðja og síðast mótið verður í tvennu lagi, annars vegar hefðbundin tölt keppni með fimm dómara, keppt í einum flokki og einn inn á í einu. Hins vegar verður keppt í „frjálsri gæðingakeppni“ . Einn keppandi verður inn á í einu og hefur hann frjálsar hendur með að sína hvað í sínum hesti býr. Mun keppandinn hafa ákveðin tíma til að sýna það besta í hestinum. Engar hefðbundnar reiðleiðir eru þannig að keppandinn má nota salinn eins og honum sýnist, einnig velur keppandinn tónlist með sínu atriði til að gefa atriðinu heildarmynd ásamt hæfileikum hestsins. Munu dómararnir dæma gangtegundir eins og í venjulegir gæðingakeppni og síðan „flæði“ sem kemur í stað vilja og fegurð í reið. Nánari útlistun á frjálsri gæðingakeppni kemur svo fljótlega. Er þetta nýjung sem gaman verður að sjá hvernig kemur út,” segir í fréttatilkynningu frá Rangárhöllinni.

Skráning í fimmgangskeppnina fer fram á netfanginu ssaggu@itn.is og er lokafrestur skráningar föstudagskvöld 4. mars kl. 23.59.

Skráningargjaldið er 2.500 kr. á hest og greiðist inn á 1169-26-2212 og kt. 221272-4719, senda kvittun á netfangið olasens@hotmail.com. Upplýsingar sem þurfa að koma fram er kennitala og nafn knapa, IS-númer, nafn og uppruna hests. 

Aðgangseyrir inn á mótið er 500 kr. en frítt er fyrir börn 12 ára og yngri og knapa mótsins.