miðvikudagur, 24. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Moldóttur litur

12. mars 2014 kl. 13:02

Nokkuð dæmigert ljósmoldótt folald í fæðingarsnoðinu.

Fræðandi greinar um folaldaliti.

 

Moldóttur litur verður til þegar leirlitagenið hefur áhrif á jarpan lit. Jörp hross hafa til að bera bæði rautt og brúnt litarefni, fax, tagl og leggir einkennast af svörtu litarefni. Á fagurjörpu hrossi eru bolhárin að mestu rauð, á dökkjörpu eru bolhárin nánast svört. Leirlitagenið lýsir upp rauða litinn, en hefur vanalega lítil sem engin áhrif á svarta litinn. Þannig breytist jarpt í moldótt.

Moldótt getur verið mjög breytilegt hvað litbrigði varðar. Bolliturinn getur verið allt frá ljósrjómagulu og upp í dökkan gulrauðan lit, en ef mikið er um svört hár á búknum verður liturinn draugmoldóttur. Þá geta svörtu hárin stundum orðið skolleit. Draugmoldótt er ákaflega breytilegur litur milli einstaklinga, sum draugmoldótt hross eru svo dökk að þau virðast brún eða jörp, en önnur eru mun ljósari. Draugmoldótt er einnig gjarnt á að breytast töluvert með árstíðunum.

Eins og með leirljósa litinn, þá er samhengi milli þess hvernig hið jarpa upplag moldótta litarins er og þess hvernig birtingarmyndir moldótts verða. Þannig gefur ljósjarpur grunnur ljósmoldóttan lit, dökkrauðjarpur gulmoldóttan, dökkjarpur draugmoldóttan og svörtustu afbrigði dökkjarps svartmoldótt. Einnig getur apalmynstur orðið áberandi í moldóttu.

Páll og Freyja Imsland rita greinaröð um folaldaliti í Eiðfaxa í ár. Í 2. tölublaðinu má nálgast grein um leirlitina, leirljóst, moldótt, muskótt og fölt, en þeir eiga það sameiginlegt að verða til þegar leirlitagenið lýsir upp lit hrossins. Hægt er að panta áskrift í síma 511 6622 eða í gegnum tölvupóstfangið eidfaxi@eidfaxi.is.