laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Möguleikar í Austur-Þýskalandi

5. mars 2015 kl. 17:00

Arinbjörn Jóhannsson og Claudia Hofman huga að unghrossunum í Brekkulæk.

Arinbjörn Jóhannsson er frumkvöðull á sviði markaðssetningar íslenska hestsins í Þýskalandi

Ferðafrömuðurinn Arinbjörn Jóhannsson, kenndur við Brekkulæk í Miðfirði, hefur verið ötull talsmaður íslenskra hestaferða í yfir 30 ár. Hann hefur farið með erlenda ferðamenn, flesta Þjóðverja, um náttúru Íslands á hestum síðan árið 1979. Þá hefur hann kynnt starfsemi  sína og íslenska hestinn á hinum ýmsu hestasýningum víða um Þýskaland í áratugi. Hann er því enginn aukvisi og hefur góðan skilning á möguleikum íslenskrar hestamennsku. Í 2. tbl. Eiðfaxa má nálgast viðtal við Arinbjörn í Brekkulæk. Hér er brot úr því:

Andlit hestamennskunnar eru mörg og hin vannýtta auðlind leynist innan frístundareiðmennskunnar að mati Arinbjarnar. „Hún verður og er alltaf undirstaðan. Þar er fólkið sem kaupir hross og stundar þetta mest. Þetta eru aðalkúnnar okkar. Þeir eru líka miklu fleiri, frístundareiðmennirnir, en þeir sem eru í þessu til þess að keppa.“

Möguleikarnir eru þó fyrir hendi. „Þegar múrinn féll opnuðust gríðarleg svæði í Austur-Þýskalandi sem eru ónýttir. Uppbyggingin þar þarf hins vegar að koma frá Íslendingum, því að Austur-Þjóðverjar eru, af skiljanlegum ástæðum, afar tortryggnir í garð Vestur-Þjóðverja.“ Sjálfur fór Arinbjörn á stóra hestasýningu í Leipzig í Austur-Þýskalandi í nokkur ár með góðum árangri. Þaðan fær hann nú reglulega gesti."

Hægt er að gerast áskrifandi að Eiðfaxa í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.