mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Minnisvarði um Höskuld á Hofstöðum

1. október 2010 kl. 10:30

Reistur við Höskuldargerði í Reykholti næsta sumar

Höskuldur Eyjólfsson á Hofsstöðum í Hálsasveit var einn merkasti hestamaður landsins á tuttugustu öld. Hann var tamningamaður og reiðmaður sem skóp ný viðmið í hestamennsku. Frægt var hve hross fóru vel hjá Höskuldi og hestar sem hann tamdi voru eftirsóttir. Hann ræktaði grá og hvít hross og hross frá Hofstöðum hafa sett mark sitt á íslenska hrossastofninn, meðal annars stóðhesturinn Gáski frá Hofstöðum.

Nú er á döfinni að reisa minnisvarða um Höskuld við hrossagerði, eða hrossarétt, sem var reist honum til heiðurs við kirkjuna í Reykholti og nefnt Höskuldargerði. Hvatamaður að gerð minnisvarðans er Guðlaugur Óskarsson, fyrrverandi skólastjóri á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði. Hann og Höskuldur voru góðir vinir til margra ára, þrátt fyrir að aldursmunurinn á þeim hafi spannað ríflega hálfa öld.

Minnisvarðinn verður steinn. Í hann verður höggvin andlitsmynd af Höskuldi og vísa eftir hann. Það er Páll Guðmundsson listamaður á Húsafelli sem heggur í steininn. Hann hefur áður gert myndir af Höskuldi og er kunnugur andlitinu. Páll er þegar byrjaður á verkinu og áætlað er að afhjúpa minnisvarðann og vígja hrossagerðið formlega 17. júní á næsta ári.

Guðlaugur segir að hvatinn að því að hann lét til skarar skríða nú hafi verið sá að í sumar lét hann taka kvikmyndir af tveimur öldnum reiðmönnum í Borgarfirði og gæðingum þeirra. Þetta eru þeir Gísli Höskuldsson, 84 ára og reiðhestur hans Haukur frá Hrafnagili 29 vetra, og Ingimar Sveinsson 82 ára og reiðhestur hans Pílatus frá Hvanneyri 26 vetra.

„Þegar ég var kominn með þetta myndefni í hendurnar kom einhver með þá hugmynd að rétt væri að setja efnið á mynddisk og selja hann. Þá fékk ég þá hugmynd að líklega væri rétt að prófa það og nota afraksturinn til láta verða af því að reisa minnisvarða um Höskuld. Viðtökurnar eru vonum framar. Margir hafa samband við mig og vilja styrkja verkefnið með því að kaupa disk. Þannig að það stefnir í að þessi draumur verði að veruleika,“ segir Guðlaugur.

Þeir sem vilja styrkja minnisvarða um Höskuld á Hofstöðum geta haft samband við Guðlaug á netfangið: gudlaukur@vesturland.is, eða í síma 861-5971. Diskurinn er um það bil 30 mínútur að lengd og kostar 5000 krónur.