miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Milljónir í bætur

odinn@eidfaxi.is
9. september 2013 kl. 14:46

Hestaferðir

Baráttumál hestamanna

Matsnefnd eignarnámsbóta hefur úrskurðað að eigandi jarðarinnar Munkaþverár í Eyjafirði fái 5,5 milljónir króna í bætur vegna 4,4 kílómetra langs reiðvegar um landið.

Það er hestamannafélagið Funi sem er dæmt til að greiða landeiganda bætur þessar og upphæðin er kannski ekki há miðað við hve mikið land fer undir reiðveginn, en ef sundurliðun upphæðarinar er skoðuð þá er félagið dæmt til að greiða 1,7 milljón fyrir landið en bætur vegna verðlækkunar jarðarinnar 3,8 milljónir. Að auki skal félagið greiða eina milljón til ríkisins vegna vinnu matsnefndarinnar.

Eignarnám er samþykt vegna þess að almannahagsmunir eru í húfi og hlýtur það að vera hestamönnum kappsmál að þjóðleiðum sé ekki lokað.

Sú spurning vaknar því hvort lítið hestamannafélag eins og í þessum tilfelli hafi bolmagn til að borga milljónir til þess að halda þjóðleiðum opnum. Alls er um 50 milljónum úthlutað til reiðvegamála á landsvísu árlega, en kostnaður hestamannafélagsins Funa í þessu máli er að verða um tíu milljónir sem er há upphæð miðað við fyrrgreindar 50 milljónir.

Situr félagið eitt uppi með þennan kostnað, en ekki er gert ráð fyrir fjármagni í prófmál sem þetta úr sjóðum reiðveganefnda LH.

í niðurstöðu matsnefndarinnar segir meðal annars:

"Matsnendin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Fallist er á það með eignarnámsþola að landið vestan fyrirhugaðs reiðvegar að bökkum Eyjafjarðarár verði ekki nýtanlegt á stórum köflum vegna hins fyrirhugaða reiðvegar og þeirra girðinga sem settar verða upp meðfram honum. Taka ber tillit til þessa við matið. Þá er það álit matsnefndarinnar að hin fyrirhugaða framkvæmd muni rýra jörðina í verði meira en sem nemur verðmæti hinna 4,41 ha lands sem tekið er eignarnámi, enda mun allt land jarðarinnar sem liggur að Eyjafjarðará að nokkru ónýtast vegna framkvæmdarinnar og gera það minna hentugt til ýmis konar nýtingar. Þá er að mati nefndarinnar ljóst að reiðvegurinn og girðingin meðfram honum muni hafa truflandi áhrif á aðgengi að Eyjafjarðará til veiðiiðkunar o.fl., þó að aðkoma veiðimanna að ánni verði ekki bönnuð."

Hægt er að sjá úrskurðinn í heild sinni hér