sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Miklar breytingar framundan

odinn@eidfaxi.is
3. nóvember 2013 kl. 15:04

Forystusveit hestamennskunar tekur miklum breytingum á næstu vikum.

Mjög miklar breytingar eru að verða í forystusveit hestamennskunar en eins og fram hefur komið hér á vefnum þá er Kristinn Guðnason að hætta sem formaður Fagráðs og Félags Hrossabænda. Í vikunni bárust fréttir af því að Guðlaugur Antonsson sé hættur sem Landsráðunautur alla vegana í bili.

En breytingar eru einnig að verða í forystusveit FEIF, Jens Iversen forseti FEIF er að hætta en ekki er komið í ljós hver tekur við. Einnig hefur formaður íþróttamála hjá FEIF (Director of Sport ) Marko Mazeland gefið það út að hann hyggist ekki starfa áfram á því sviði.

Marlisa Grimm ræktunarleiðtogi FEIF ætlaði samkvæmt heimildum Eiðfaxa líka að hætta í ár, en hart var lagt að henni að halda áfram um sinn og meðal annars vegna þess að ótækt þótti að svo margir gengju úr stjórn FEIF á sama tíma.

Því er ljóst að miklar breytingar eru að verða á forystusveit hestamennskunnar bæði í ræktun og sporti. Eins og oft er þá er gagnrýni hörð á störf forystumanna greinarinnar og tala þeir flestir um hve erfitt sé að starfa fyrir greinina vegna þeirrar persónulegu gagnrýni sem störfum þessum fylgir. Oft vill það brenna við hjá okkur hestamönnum að gagnrýna persónu þeirra sem starfa í forystunni en ekki störf þeirra og málstað. Umræða er of oft á lágu plani og ósérhlífni, vinnusemi og ómældur tími sem í störf þessi fer hjá forystumönnum greinarinnar sjaldan mikils metinn.

Spurningin er hvort að gott fólk veigri sér við að starfa fyrir greinina vegna ómálefnalegrar gagnrýni og að mikill tími fari í störf þessi oft fyrir litla eða enga þóknun. Sem dæmi hefur formaður fagráðs og félags hrossabænda fengið milli fimm og tíu þúsund krónur á dag fyrir fundarsetu og taka þessir fundir oftar en ekki lungann úr deginum. Hafa kjör hans verið þannig að hann hefur fengið helming akstursins greiddan, en lagt hinn helminginn fram úr eigin vasa.

Svo er komið að frambjóðendur í embætti forystumanna eru fáir og sem dæmi þá setur Sveinn Steinarsson fram framboð sitt til formanns félags hrossabænda með þeim fyrirvara að greitt verði fyrir störf sín að meira leiti en gert hefur verið.

Eins er það með mögulega arftaka Guðlaugs. Í samtölum við Eiðfaxa hafa aðilar sem hafa tilskilin réttindi til að taka við stöðu Landsráðunauts lýst því yfir að þeir vilji ekki taka að sér stöðuna vegna þess hve óbilgjörn gagnrýni fylgir starfinu. Erfitt er að spá um hver tekur við starfi Guðlaugs en ráða verður tímabundið í stöðu þar sem Guðlaugur tekur sér launalaust ársleyfi frá starfi ráðunauts.

Hver tekur við starfi Forseta FEIF af Jens Iversen en Gunnar Sturluson hefur verið orðaður við starfið. Gunnar gegnir nú starfi varaforseta FEIF.