sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikil skráning á Meistaramót Andvara

1. september 2011 kl. 14:16

Möller frá Blesastöðum á bragðmiklu brokki. Knapi á myndinni er Þórður Þorgeirsson.

Eitt vinsælasta mót ársins haldið um helgina

Eitt vinsælasta hestamót ársins, Meistaramót Andvara, verður haldið á Andvaravöllum um helgina. Mikil skráning er á mótið, eða alls 322 skráningar. Flestir keppa í opnum B flokki gæðinga eða 87.

Á meðal keppenda eru gamlir gaurar eins og Stakkur frá Halldórsstöðum, sem hefur unnið keppni í A flokki gæðinga fimm eða sex sinnum í röð á þessu móti. Einnig Klerkur frá Bjarnanesi í B flokki. Nokkrir knapar koma að norðan og austan með hesta sína og má þar nefna kappa eins og Tryggva Björnsson, Baldvin Ara Guðlaugsson og Skapta Steinbjörnsson.

Í B flokk er skráður stóðhesturinn Möller frá Blesastöðum, sem er með um 9,0 fyrir hæfileika í kynbótadóma. Hann hefur lítið sem ekkert komið fram síðan á LM2008 en hefur verið í léttri þjálfun, meðal annars hjá Steingrími Sigurðssyni í fyrra. Knapi á Möller er hin knáa reiðkona Helga Una Björnsdóttir. Spennandi verður að sjá hvernig Möller spjarar sig í gæðingakeppninni.

Dagskrá mótsins hefst klukkan ellefu í fyrramálið, föstudaginn 2. september og lýkur með úrslitum í opum A flokki gæðinga á sunnudags eftirmiðdaginn.