miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikil aukning ferðamanna

23. mars 2016 kl. 12:00

Fákasel.

Fákasel er orðið einn aðalviðkomustaður ferðamanna.

Fákasel, íslenski hestagarðurinn, hefur nú verið starfrækur í tvö ár. Í Fákaseli fer fram umsvifa mikil kynningarstarfsemi á íslenska hestinum en þrjár til fimm sýningar eru haldnar á dag. Ásamt því er þar rekin veitingahús sem opið er allan ársins hring ásamt verslun þar sem seld er íslensk hönnun.

Guðmar Þór Pétursson er aðstoðarframkvæmdarstjóri Fákasels en einnig er hann höfundur og leikstjóri hestasýninganna sem fara þar fram. „Til að byrja með buðum við einungis upp á kvöldsýningu sem kallast The Legends of Sleipnir en þar reynum við að miðla ævintýraheimi hestins og kynna íslenska hestinn fyrir fólki. Hins vegar höfum við verið að upplifa mikla aukningu ferðamanna yfir daginn og því bjóðum við nú einnig upp á styttri sýningar yfir daginn. Þegar mest er erum við jafnvel að sýna fimm sýningar á dag,“ segir Guðmar en gríðarleg aukning hefur verið á gestum í Fákaseli undanfarna mánuði og sló febrúar öll aðsóknarmet. Aðspurður telur Guðmar að 4-600 manns komi við í Fákaseli á dag. „Við erum að fá ótrúlega góð viðbrögð við sýningunum. Eftir sýningarnar fær fólk að koma niður á gólf og taka myndir og klappa hrossunum. Einnig er hægt að fara í hesthúsið og skoða þar. Það er rosaleg góð tilfinning að standa hérna á gólfinu eftir sýningu þar sem eru hundruðir manna að horfa á og allir að dásama hestinn okkar og kynnast honum,“ segir Guðmar en hann reiknar með að um tvö hundruðþúsund ferðamanna munu leggja leið sína í Fákasel í ár.

Lestu meira um starfsemina í Fákaseli í nýjasta tölublaði Eiðfaxa. Hægt er að gerast áskrifandi í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.