miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikið álag á kynbótadómarar

odinn@eidfaxi.is
28. febrúar 2014 kl. 15:05

Kynbótadómar á Melgerðismelum

Þrír hættir. Engir nýir í staðinn

Líklegt er að mikið verði að gera hjá kynbótadómurum í vor, en eins og flestum hestaáhugamönnum er ljóst verður haldið Landsmót á Gaddstaðaflötum nú í sumar. Landsmót á suðurlandi hafa í gegnum tíðina dregið að sér flesta áhorfendur stórmóta, en um fimmtán þúsund gestir sóttu LM2008 sem haldið var á Gaddsaðaflötum.

Í máli Gunnfríðar ábyrgðarmanns hrossaræktarinnar á fundi í Fákaseli kom í ljós að tveir dómarar munu ekki dæma hér á landi vegna þess að þeir standast ekki þau viðmið sem nýjar siðareglur kveða á um. Í þeim segir að ef kynbótadómarar hafi hrossarækt, hrossasölu eða stóðhestahald sem sína aðalatvinnu séu þeir ekki gjaldgengir í dóma hér heima.

Samkvæmt heimildum Eiðfaxa eru þessir dómarar Svanhildur Hall hrossabóndi á Holtsmúla og Sigbjörn Björnsson á Lundum II í Borgarfirði. Auk þess að þau dæmi ekki þá hefur Magnús Lárusson tilkynnt forsvarsmönnum hrossaræktarinnar að hann sé hættur störfum sem dómari.

Einnig kom fram í máli Gunnfríðar að ekki komi nýjir dómarar inn í stéttina í ár og því er víst að álag á þá dómara sem eftir eru verður mikið. Auk fyrrgreindra dómara sem dottnir eru út þá hefur Guðlaugur Antonsson skipt um starfsvettvang, en hann hefur dæmt stóran hluta kynbótahrossa undanfarin ár en mun dæma mun minna í ár.

Því er ljóst að álag á þá dómara sem starfa munu í sumar verður mikið, en lengi hefur sú umræða verið í gangi að álag á þá sé nú þegar um of.