föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Miðsumarssýningar á tveimur stöðum

25. júlí 2019 kl. 22:33

Korgur frá Garði og Bjarni Jónasson

Kynbótasýningar norðan og sunnanlands

 

 

Miðsumarssýningar kynbótahrossa fóru fram í vikunni á tveimur stöðum á landinu. Annars vegar á Hólum í Hjaltadal og hinsvegar á Gaddstaðaflötum við Hellu.

Alls voru 105 hross sýnd í vikunni á Hellu í fullnaðardóm og á Hólum voru þau 52.

Á Hólum stendur efstur stóðhesta Korgur frá Garði. Korgur er átta vetra gamall undan Hágangi frá Narfastöðum og Kórónu frá Garði en sú er undan Þokka frá Garði. Korgur hlaut fyrir sköpulag 8,16 og fyrir hæfileika 8,66 í aðaleinkunn 8,46. Hann hlaut m.a. 9,5 fyrir bak og lend og 9,0 fyrir tölt,brokk,vilja og geð og fegurð í reið. Knapi er Bjarni Jónasson en ræktandi er Jón Sigurjónsson.

Efst hryssna á Hólum fyrir yfirlit er Stjörnuspá frá Þúfum. Stjörnuspá er 6 vetra gömul undan Stjörnustæl frá Dalvík og Lýsingu frá Þúfum. Stjörnuspá hlaut fyrir sköpulag 8,63, fyrir hæfileika 8,47 og í aðaleinkunn 8,53. Hún hlaut 9,0 fyrir háls/herðar og bóga, samræmi, fegurð í reið og hægt tölt. Knapi er Mette Mannseth. Ræktendur Mette og Gísli Gíslason

Á Gaddstaðaflötum er það Flikka frá Höfðabakka sem stendur efst hryssna fyrir yfirlit. Flikka er 7 vetra gömul klárhryssa undan Lord frá Vatnsleysu og Freystingu frá Höfðabakka. Flikka hlaut fyrir sköpulag 8,42 fyrir hæfileika 8,54 og í aðaleinkunn 8,49. Hún hlaut 9,5 fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag og fegurð í reið. 9,0 hlaut hún fyrir háls/herðar og bóga, samræmi, hófa og hægt tölt. Ræktendur eru Sverrir Sigurðsson og Sigrún Kristín Þórðardóttir, en eigendur eru Sverrir og Helga Una Björnsdóttir sem einnig er knapi.

Efstur stóðhesta á Gaddstaðaflötum er Álfaskeggur frá Kjarnholtum. Álfaskeggur er 6 vetra gamall undan Álfarni frá Syðri-Gegnishólum og Heru frá Kjarnholtum. Fyrir sköpulag hlaut hann 8,20, fyrir hæfileika 8,53 og í aðaleinkunn 8,40. Hann hlaut 9,0 höfuð, vilja og geðslag og fet. Ræktandi er Magnús Einarsson en eigandi Guðlaugur Birnir Ásgeirsson sýnandi er Ævar Örn Guðjónsson

Hér fyrir neðan má finna röðun hrossa á yfirliti á Hellu

https://www.rml.is/static/files/Hrossaraekt_RML/Hollarodun2019/GaddstflMid/hella_yfirlit_midsumars_vika_2.pdf

Hér fyrir neðan má finna röðun hrossa á yfirliti á Hólum

https://www.rml.is/static/files/Hrossaraekt_RML/Hollarodun2019/Holar/Holar-mids/holar_midsumar_hollarod_yfirlit.pdf