þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mídas heillar

28. október 2013 kl. 20:13

Mídas frá Kaldbak var kosinn stóðhestur ársins í á stóhestasýningu í Svíþjóð á dögunum. Mynd: Ida Larsson.

Stóðhestur ársins í Svíþjóð í þjálfun hjá Jóhanni Skúlasyni.

Það lítur út fyrir að glæsigripurinn Mídas frá Kaldbak muni taka við hlutverki Hnokka frá Fellskoti sem keppnishestur Jóhanns Skúlasonar. Eiðfaxi spjallaði við eigendur Mídasar.

Mídas frá Kaldbak var seldur sameignafélagi sjö kvenna í Svíþjóð og fór utan í febrúar 2012. Síðan þá hefur hann verið í þjálfun hjá einum af eigendum sínum, Ninu Keskitalo, ásamt því að sinna ræktunarhlutverki sínu. Mannlegu mæður Mídasar eru nú orðnar níu talsins: Eva Spegel, Nina Keskitalo, Agneta Rolf, Ellen Lindwall, Malin Annell, Lena Berglund, Elisabeth Särenfors, Åsa Lundqvist and Kristin Hjörleifsdottir Steiner.

Þær eru að sögn bálskotnar í honum. “Mídas er frábær karakter og það er hreinlega gefandi að umgangast hann. Afkvæmi hans hingað til líta afar vel út, hreyfa sig fallega og við hlökkum því til framtíðarinnar. Mídas er í raun stórkostlegur hestur með fjórar frábærar gangtegundir, gott geðslag og vænlegur til undaneldis. Við sjáum aldrei eftir því að hafa keypt hann,” segja þær. Á þessu rúma ári hefur Mídas verið notaður nokkrum sinnum í keppnir og var auk þess sýndur á stóðhestahátíð Svíþjóðar í vor. Þar var hann kosinn stóðhestur ársins.

Markið sett á Herning 2015

Mídas hefur því verið í Danmörku hjá Jóhanni síðan í byrjun október. "Markið er að sjálfsögðu sett á Heimsmeistaramótið í Danmörku 2015 og munum við síðar ræða það við Jóhann hvernig leiðin að því markmiði verður skipulögð. En fyrst þarf Jóhann að kynnast Mídasi og sjá hvað honum finnst.”

Mídas er jafnaldri Hnokka, fæddur 2003, undan Gára frá Auðsholtshjáleigu og Væntingu frá Kaldbak. Hann er klárhestur með 8,34 í aðaleinkunn kynbótadóms. Þar af með átta sinnum 9 fyrir kosti; fyrir tölt, brokk, stökk, hægt tölt, hægt stökk, vilja og geðslag og fegurð í reið. Hann vakti verðskuldaða athygli á gæðinga- og íþróttamótum hérlendis og skipaði sér oftar en ekki meðal efstu hrossa í tölt- og fjórgangsgreinum.

Þessu tengt:
Mídas á nú sjö mannlegar mæður