sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mídas á nú sjö mannlegar mæður-

17. desember 2011 kl. 11:52

Mídas á nú sjö mannlegar mæður-

Mikið var skrafað í vor um söluna á Mídasi frá Kaldbak og voru nokkrir mögulegir kaupendur þessa glæsilega stóðhests  nefndir til leiks. Greinilegt var að margir sátu um gripinn þegar ljóst var að klárinn væri falur, enda með vænan kynbótadóm í farteskinu, skoraði m.a. átta níur fyrir dómi 2008, með aðaleinkunn upp á 8,34, auk þess sem hann hefur vakið athygli á mótum undanfarin ár og skipað sér meðal efstu hrossa í tölt- og fjórgangskeppnum í gæðinga- og íþróttamótum.

Að lokum var það sameignarfélag sjö vinkvenna í Svíþjóð sem keyptu Mídas, sem er forvitnilegt fyrir margar sakir enda hafa konurnar, ólíkt mörgum stórum ræktendum,  ekki staðið í stórtækri ræktun á íslenska hestinum nema í örfá ár saman. Þær virðast þó hafa nokkuð næman smekk á góða gæðinga og búa að viðskiptaviti þar að auki og hafa sameinað krafta sína í kaupum á úrvals stóðhestum með það fyrir augum að bæta ræktunarstarfið í Svíþjóð. Sameignafélag þessara sjö vinkvenna á nú þegar tvo aðra stóðhesta, þá Fjörni frá Hólum sem er talin mikil vonarstjarna á keppnisvellinum og Arð frá Lundum sem hefur verið einn eftirsóttasti stóðhestur í Svíþjóð undanfarin ár.

Eiðfaxi kynnti sér þessar sjö vinkonur sem sameinast í áhuga sínum á íslenska hestakyninu:

Mídas á nú sjö mannlegar mæður. Þær heita  Nina Keskitalo, Eva Spegel, Kristin Hjörleifsdóttir Steiner, Malin Annell, Elisabeth Särenfors, Agneta Rolf, Åsa Lundqvist og Ella Lindvall.

Þetta eru kjarnakonur. Bakgrunnur kvennanna í hestamennsku er afar fjölþættur en allar eiga konurnar íslenska hesta. Sumar ríða út sér til yndisauka og rækta í smáum stíl, aðrar hafa gert ræktun hrossa að sínu lifibrauði. Sumar starfa í kynningarstörfum um íslenska hestinn, aðrar kenna, þjálfa og keppa. 

Konurnar koma á misjafnan hátt að rekstri sameignarfélagsins en Nina sér alfarið um þjálfun og sýningar á hestum félagsins, en hún er klifjuð reynslu – hefur m.a. verið hluti af sænska landsliðinu í fjölda ára, bæði sem knapi og þjálfari. Einnig hafa fjölskyldur kvennanna sokkið með þeim í ævintýri íslandshestamennsku. Til að mynda starfar dóttir Evu, Julia Lindmark, við tamningar og þjálfun hér á landi og dóttir Agnetu, Matilda er afreksknapi í sænska ungmennalandsliðinu. Nýr keppnishestur hennar er enginn annar er töltmeistarinn Tumi frá Stóra-Hofi sem Matilda stefnir nú með á HM í Berlín 2013.

 „Ást á íslenska hestinum er það sem sameinar okkur. Fyrir okkur er íslenski hesturinn fullkominn. Hann býr yfir gríðarlegri orku ásamt góðu geðslagi. Hið einstaka ganglag hans er spennandi og að hægt sé að vinna með fjórar eða fimm mismundandi gagntegundir,“ segja þær. Ræktunarmarkmið sameignarfélagsins er að bjóða upp á úrvalskynbótahesta sem gefa af sér fallega byggða og hæfileikaríka reið- og keppnishesta við allra hæfi.

Sannfærðar á 10 mínútum

Fyrir tilviljun höfðu Eva og Malin séð myndskeið af Mídasi á internetinu fyrr á árinu og urðu, að sögn Malinar, heillaðar af gæðingnum. „Nina var þó ekki sannfærð um ágæti Mídasar fyrst enda lítið að marka óskýr myndbönd á internetinu og við létum því kyrrt liggja. En án nokkurrar vitundar um áhuga okkar, hafði vinur okkar Ólafur Ásgeirsson samband við Ninu og sagðist vita af fullkomnum ræktunar- og keppnishesti fyrir félagið sem væri á sölu. Þá var það Mídas.“ Ólafur hafði áður reynst þeim stöllum vel og aðstoðaði þær við kaup á bæði Arði og Fjörni. Þær drifu sig til Íslands í sumar til að skoða Mídas. ”Það liðu aðeins 10 mínútur frá því við sáum hann þar til við vissum fyrir víst, að þennan hest langaði okkur í.”

Kaupin voru gerð og heldur Mídas utan til stoltra eigenda sinna í janúar og er honum ætlað stórt hlutverk.  „Mídas er ótrúlega tignarlegur stóðhestur, svona stór, eldrauður og fallegur með rúman gang og ljúfa lund. Ekki skemmir hversu vel taminn og þjálfaður hann er af Steingrími Sigurðssyni. Að baki Mídasi liggja einnig eftirsóknaverðar ættlínur sem henta vel okkar ræktunarmerum.  Vonandi munu fleiri hryssueigendur í Svíþjóð sýna honum áhuga. Kynbótamatið hans er hátt og með fáeinum verðlaunasætum á mótum eru í raun allar leiðir færar fyrir hann. Okkur þykir það ferli sem framundan er bæði skemmtilegt og spennandi, það verður afar áhugavert að fylgjast með því hvernig Mídas muni pluma sig í Svíþjóð,“ segja konurnar sem hyggja á enn frekari hrossakaup. „Varið ykkur bara! Við gætum dúkkað upp og keypt uppáhalds hestinn þinn,“ segja þær hlæjandi í gríni að lokum. En fylgir ekki öllu gríni einhver alvara?