föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meistaradeildinni lokið

7. apríl 2013 kl. 12:09

Meistaradeildinni lokið

Nú er frábæru tímabili í Meistaradeildinni lokið og eins og áður hefur komið fram á sigraði heimamaðurinn Guðmundur Friðrik Björgvinsson með 47,5 stig. Guðmundur var einnig valinn fagmannlegasti knapinn í áhorfandakosningu auk þess að vera ásamt Þorvaldi Árna, Jakobi Svavari og Kára Steinssyni í stigahesta liðinu. Hann er því sjötti knapinn til að vinna þennan eftirsótta titil en líkt og hjá mörgum fyrri meisturum þá var það fyrst og fremst einn hestur sem fleytti honum í sigursætið en það er gæðingurinn Hrímnir frá Ósi en á honum varð hann annar í Gæðingafimi og Fjórgangi, í 3-4.sæti í tölti og í 8.sæti í slakataumatölti.

Annar var Viðar Ingólfsson sigurvegari Meistaradeildar 2007 og 2008. Þetta tímabilið var það Már frá Feti sem færði Viðari flest stigin en hann var í verðlaunasæti í bæði fimmgangi og gæðingaskeiði og rétt fyrir utan úrslit í gæðingafiminni þrátt fyrir frábæra sýningu. Þriðji varð Árni Björn Pálsson og er það besti árangur hans í keppninni. Hans helsta tromp þetta árið er Íslandsmeistarinn í tölti Stormur frá Herríðarhóli sem Árni reið bæði í gæðingafiminni og töltinu þar sem hann varð annar á eftir Vornótt og Viðari.

Í slakataumatöltinu í gær voru þrír knapar/hestar sem báru að mati undirritaðs af í keppninni en það voru þeir Alur frá Lundum/Jakob sem sýndu mikið öryggi þó svo að höfuðburður og reising hafi oft verið betri á slaka taumnum, Baldvin frá Stangarholti/Sigurður Matt en Baldvin hefur ekki sést svona góður lengi og Týr frá Litla-Dal/Valdimar sem klárlega áttu besta slakataumatölt kvöldsins. Þetta eru allt þrautreyndir hestar í þessari grein en þó eru klárlega hestar sem með meiri æfingu og reynslu geta yljað þessum reynsluboltum greinarinnar undir uggum. Þar má nefna Ösp frá Enni sem var listavel sýnd af Þórdísi Erlu, Hrannar Frá Skyggni, Björk frá Enni, Stórval frá Lundi og Frama frá Ketilsstöðum.

Sumir komust fulllangt í þessari grein á slakri frammistöðu á slakataumakaflanum og hægt er að nefna Stjörnu frá Stóra-Hofi sem var besta hross kvöldsins á frjálsu ferðinni en hefur illa náð völdum á tölti með slökum taumi og það sama má segja um Hrímni/Guðmund og Hlekk/Eyjólf sem voru frábærir á öðrum þáttum en slökum taumi en greinilega lítt tilbúnir til að sýna tölt með slökum taumi í samanburði við þá bestu.

Dómarar kvöldsins stóðu sig með miklum ágætum að mestu þó svo að munur á milli dómara hafi þó farið upp í 1,2 á milli para þegar mest var. Þó ber að nefna að samræmi milli dómara í úrslitum var með því besta sem sést hefur. Þetta sýnir kannski að líkt og hrossin og knaparnir eru dómarnir að komast í form, en það var mikið framfaraskref að fjölga dómurum úr fimm í tíu í dómum og hefur dómgæsla stórlagast við þá breytingu.

Það vekur þó undirritaðan ávalt til umhugsunar að enn sé það kerfi við lýði að hæsta og lægsta einkunn detti út. Þetta gerir dómaniðurstöðu á kerfisbundin hátt miðlægari og með þessu er gert ráð fyrir því að fjórir af tíu dómurum séu ekki traustsins verðir. Oft verða við þetta kerfi glöggir dómarar sem vilja skilja skýrt á milli lélegs – miðlungs – góðs – úrvals úti en miðlægur kjarklítill dómari ávalt inni. Réttast væri að treysta niðurstöðu allra dómaranna en efla frekar faglega þekkingu þeirra og reynslu enn frekar.

Það var mikil spenna fyrir skeiðið en svo fór að Ragnar Tómasson sigraði á Ísabel frá Forsæti. Ragnar er sannarlega í hópi bestu skeiðknapa landsins og þrátt fyrir að hryssan hafi ekki legið í fyrri spretti þá kom hann fullur öryggis í seinni sprettinn og setti langbesta stíman 5,90 sek. Ísabel er í dag eitt þekktasta skeiðhross landsins en hesturinn í öðru sæti er rétt að byrja sinn feril en þar er á ferðinni grimmvakur Óðssonur Fróði frá Laugabóli en hann og Árni Björn áttu sæmilegan fyrri sprett og stórbættu sig í seinni spretti og enduðu með tíman 5,96 sek. Þremur hundruðustu á eftir þeim Fróða/Árna urðu svo Bjarni Bjarnason og Hera frá Þóroddsstöðum, en það er gaman að geta þess að sigurvegari 150m skeiðsins kemur einnig frá Þóroddstöðum. Það er því ekki bara í orði sem skeiðið nýtur heiðurssess á Þeim bænum, en Bjarni Þorkelsson á Þóroddsstöðum hefur um árabil verið einn ötulasti talsmaður alhliðahestsins hér á landi.

Meistaradeildin hefur unnið sér fastan sess á meðal hestunnenda og núna eru sambærilegar deildir víðar eins og KS-deildin sem hefur styrkst til muna. Framkvæmdin er að flestu leiti góð þó svo að betur mætti skýra hvaða reglum er farið eftir, hvenær og þá hvenær sérstakar sérreglur deildarinnar eiga við. Svo væri nauðsynlegt að birta þessar reglur á vefsíðu deildarinnar, en þær reglur sem þar eru núna eru löngu úreltar. Mest allt starf starfsfólks deildarinnar er unnið í sjálfboðavinnu og er slíkt starf oft vanþakklátt en það er þó grundvallaratriði að vita eftir hvað reglum er farið. Einnig er spurning um í hvaða röð greinarnar eru settar. Nú í ár varð breyting frá því fyrra og var fimmgangurinn t.d. mánuði fyrr en í fyrra. Það hefði kannski verið betra að hafa vinsælli grein en slakataumatöltið með skeiðinu t.d. tölt til að trekkja að fleiri áhorfendur og byrja lokakvöldið frekar á skeiðinu þannig að knaparnir enduðu í fínu fínasta pússi, en það mundi gera lokaverðlaunaafhendinguna hátíðlegri.

Knapar deildarinnar stóðu sig að flestu leiti með prýði í þeim erfiðu aðstæðum sem reiðhallir eru. Það má þó alltaf gera betur og reiðmennska sem snýst fyrst og fremst um hraða og fótaburð á kostnað hreinleika gangtegundanna á að heyra sögunni til. Gróf reiðmennska og misnotkun á búnaði eins og íslenskum stöngum eru þættir sem dómarar eiga að taka á og oft virðist sem svo að ekki megi áminna knapa hvað þá að gefa þeim gult spjald. Dómarar verða að átta sig á því að það eru þeir sem stýra leiknum og líkt og í knattleikjum þá eru áminningar notaðar til að setja leikmönnum ramma. Þegar knöpum er settur rammi eru þeir langflestir mjög fljótir að aðlaga sig að þeim ramma því að allir vilja þeir ná sem lengst. Til þess er leikurinn gerður.

Þetta var mjög góð Meistaradeild, við óskum öllum þeim sem að henni stóðu til lukku með hana og bíðum spennt eftir spennandi keppnisári, en Meistaradeildin hefur aldeilis sett tóninn fyrir það sem koma skal.

odinn@eidfaxi.is