sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meistaradeild VÍS: Fimmgangur á fimmtudaginn

21. mars 2010 kl. 10:16

Meistaradeild VÍS: Fimmgangur á fimmtudaginn

Forsala aðgöngumiða fyrir næsta mót Meistaradeildar VÍS er hafin.  Keppt verður í fimmgangi næsta fimmtudag kl. 19:30 í Ölfushöllinni. 

Sjá nánar fréttir um næsta mót á heimasíðu deildarinnar www.meistaradeildvis.is 

Í næstu viku verður keppt í fimmgangi í Meistaradeild VÍS. Má gera ráð fyrir mikilli baráttu þá, þar sem aðeins örfá stig skilja að efstu keppendur í stigakeppninni. Enn er ekki orðið ljós hvaða hross keppendur mæta með en gaman er að velta vöngum yfir því út frá þeim hestum sem þeir voru með á síðasta fimmgangsmóti deildarinnar og eins á síðasta keppnistímabili.

Það var Eyjólfur Þorsteinsson, Málning, sem sigraði greinina í fyrra á Ögra frá Baldurshaga. Hann var jafnframt hástökkvari kvöldsins þar sem hann kom bakdyramegin inn í A-úrslitin, en hann var áttundi eftir forkeppni. Þeir félagar gerðu góða hluti saman á keppnisvellinum í fyrra
og má því gera ráð fyrir að stefnan hjá Eyjófli sé að verja titilinn á Ögra.

Í öðru sæti í fyrra varð Sigurbjörn Bárðarson, Lífland, á Stakki frá Halldórsstöðum. Þeir félagar lentu í öðru sæti í meistaraflokki á Reykjavíkurmeistaramótinu og urðu jafnframt í öðru sæti á Íslandsmeistaramótinu. Þannig að þeir eru til alls líklegir.

Í þriðja sæti varð Viðar Ingólfsson, Frumherja, á Segli frá Mið-Fossum 2. Viðar keppti á honum á nokkrum mótum í fyrra við góðan árangur og voru þeir í a-úrslitum á flestum af sterkustu mótum síðasta árs.

Daníel Jónsson, Top Reiter, varð fjórði í fyrra á Tóni frá Ólafsbergi. Þeir félagar voru Íslandsmeistarar 2009 og fulltrúar Íslands á Heimsmeistaramótinu í Sviss s.l. sumar og því mun Daníel koma með nýjan hest. Gaman verður að sjá hvaða hestur verður fyrir valinu því heyrst hefur af honum þjálfa margan gæðinginn í vetur.

Hinrik Bragason, Árbakki/Hestvit, varð fimmti í fyrra á Sám frá Litlu-Brekku. Þeir voru í a-úrslitum bæði á Suðurlandsmóti og á Reykjavíkurmeistarmótinu. Annar góður fimmgangari sem Hinrik er með er Glymur frá Flekkudal en Hinrik sigraði opna flokkinn á Suðurlandsmótinu í fyrra á honum. Spurning hvor verður fyrir valinu.

Guðmundur Björgvinsson, Top Reiter, varð sjötti í fyrra á Þyt frá Neðra-Seli. Þytur er enn í þjálfun hjá Guðmundi þannig gera má ráð fyrir að hann sé einn af gæðingunum sem koma til greina hjá honum fyrir fimmganginn.

Artemisia Bertus, Auðsholtshjáleiga, mætti í úrtökuna í haust með gæðinginn Glæði frá Auðsholtshjáleigu. Glæðir er stóðhestur með 8,24 fyrir hæfileika. Spennandi verður að sjá hvort Artemisia mætir með hann eða einhvern annan gæðing úr Auðsholtshjáleigu ræktuninni.

Bylgja Gauksdóttir, Auðsholtshjáleiga, var í a-úrslitum í fyrra á Sögn frá Auðsholtshjáleigu. Í úrtökunni fyrir deildina í haust mætti Bylgja með Leiftur frá Búðardal og gerðu þau feikna gott prógramm saman. Má gera ráð fyrir að hún komi aftur með hann.

Halldór Guðjónsson, Lýsi, er búinn að mæta í tvær síðustu greinar með gæðinginn Baldvin frá Stangarholti. Baldvin er þekktur fimmgangshestur og verið að gera góða hluti þar undanfarin ár. Gaman verður að sjá hvort Halldór mæti með hann eða hvort hann sé með eitthvað leynivopn upp í erminni.

Hulda Gústafsdóttir, Árbakki/Hestvit, var í b-úrslitum í fyrra með Glað frá Brattholti en liðsfélagi hennar Teitur Árnason keppti á honum á heimsmeistaramótinu í Sviss s.l. sumar þannig að það verður spennandi að sjá hvað Hulda mætir með í ár.

Jakob S. Sigurðsson, Frumherji, var í b-úrslitum í fyrra með Vörð frá Árbæ. Þeir hafa verið að gera góða hluti saman í fimmgangi undanfarin ár og verður gaman að sjá hvort þeir koma aftur.

Lena Zielinski, Lýsi, keppti á Suðurlandsmótinu á síðasta ári á stóðhestinum Dans frá Seljabrekku og voru þau í a-úrslitum þar. Dans er með 8,66 fyrir hæfileika. Spennandi verður að sjá hvort Lena muni stíga Dans í fimmganginum.

Ólafur Ásgeirsson, Frumherji, mætti með gæðinginn Óðinn frá Hvítárholti í fimmganginn í fyrra. Gaman verður að sjá hvort þeir félagar mæti aftur saman eða hvort eitthvað leynivopn leynist í Vesturkoti.

Ragnar Tómasson, Lífland, var á Aspari frá Fróni í fyrra en keppti jafnframt á nokkrum mótum í fyrra á Djákna frá Vorsabæjarhjáleigu við góðan árangur. Spurning hvorn hestinn hann mætir með eða hvort það verður einhver allt annar hestur.

Sigurður Vignir Matthíasson, Málning, varð Reykjavíkurmeistari í fyrra á gæðingnum Birtingi frá Selá. En þeir félagar urðu Íslandsmeistarar í fimmgangi og gæðingaskeiði 2008.  Sterklega má gera ráð fyrir því að Sigurður mæti með Birting í fimmganginn.

Sigurður Sigurðarson, Lýsi, keppti í fyrra sumar mikið á Æsu frá Flekkudal í fimmgangi en nú er hún komin í folaldseign því verður gaman að sjá hvað Þjóðólfshagabóndinn mætir með í næstu viku.

Teitur Árnason, Árbakki/Hestvit, keppti við góðan orðstýr á Glað frá Brattholti í fyrra og kepptu þeir félagar saman á Heimsmeistaramótinu í Sviss fyrir Íslands hönd. Órðáðið er hvaða gæðing Teitur mætir með í næstu viku.

Valdimar Bergstað, Málning, byrjaði með nýjan hest í lok síðasta keppnistímabils, Vafa frá Hafnarfirði. Þeir félagar gerðu góða hluti á Suðurlandsmótinu og má gera ráð fyrir að þeir verði saman í fimmgangnum.

Þorvaldur Árni Þorvaldsson, Top Reiter, keppti á nokkrum mótum í fyrra á Freyþóri frá Hvoli við góðan árangur, voru meðal annars í a-úrslitum á Íslandsmótinu. Spurning hvort Þorvaldur mæti með hann eða eitthvað annað.

Þórdís Erla Gunnarsdóttir, Auðsholtshjáleiga, mætti á úrtökuna í haust með hest úr eigin ræktun Hreggvið frá Auðsholtshjáleigu. Gaman verður að sjá hvort þau mæta aftur saman en Hreggviður er með 8,65 fyrir hæfileika í kynbótadómi.

Ævar Örn Guðjónsson, Lífland, hefur keppt á undanförnum árum við góðan árangur á gæðingnum Bergþóri frá Feti. Ævar er nýkominn inn í deildina heyrst hefur að hann sé kominn á fullt í að þjálfa fyrir þær greinar sem eftir eru.

www.meistaradeildvis.is