fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meistaradeild í hestaíþróttum

2. febrúar 2012 kl. 09:52

Óskar frá Blesastöðum er skráður til leiks í fjórgangi í Meistaradeildinni í kvöld. Knapi á myndinni er Nils Christian Larsen.

Fjórgangur í kvöld, 2. febrúar

Meistaradeild í hestaíþróttum hefst í kvöld, fimmtudaginn 2. febrúar með keppni í fjórgangi. Ráslisti hefur verið birtur, en reynslan segir okkur að ólíklegt er að allir knapar mæti á þeim hestum sem þeir eru skráðir á.

Ef við rennum yfir þekktari keppnishesta á listanum og þá sem eru líklegir vegna einkunna í kynbótadómi, eða ættu alla vega að vera það, þá er Hinrik Bragason skráður á Ketil frá Kvistum, Naglason frá Þúfu, sem hefur hlotið mjög álitlegar einkunnir sem fjórgangshestur í kynbótadómi. 9,0 fyrir brokk, vilja, fegurð og stökk, 8,5 tölt og 8,0 fet. Hann náði einnig yfir 8,40 í B flokki í fyrra.

Sigurbjörn Bárðarson er skráður með stóðhestinn Penna frá Glæsibæ, hátt dæmdan fjórgangshest í kynbótadómi, sem hann var með í deildinni í fyrra og gekk allvel. Penni er tinnusvartur, stór og glæsilegur hestur. Var í kringum sjöuna í fjórgangi á íþróttamótum í fyrra og spennandi að sjá hvert gamli meistarinn er kominn með þennan kandídat sinn nú.

Þorvaldur Árni Þorvaldsson er skráður með Segul frá Flugumýri II. Stóðhest undan Víði frá Prestsbakka og Sif frá Flugumýri. Óreyndur hestur í keppni en með 9,5 fyrir tölt, og 9,0 fyrir brokk, fegurð, fet, hægt tölt, og 8,5 fyrir hægt stökk. Þannig að samkvæmt kynbótadómi hefur hann allt sem þarf í fjórganginn.

Sylvía Sigurbjörnsdóttir er skráð með stóðhestinn Þóri frá Hólum, sem er margreyndur keppnishestur. Þau hafa gert góða hluti saman undanfarin ár og eru í hægri en öruggri framför. Þórir er undan Glampa frá Vatnsleysu og Þóru frá Hólum. Elvar Þormarsson, Íslandsmeistari í fjórgangi 2010, er skráður með Þyt frá Oddgeirshólum, sem á glæstan feril að baki í hestaíþróttum í yngri flokkum hjá Arnóri Dan Krisinssyni.

Eyjólfur Þorsteinsson er skráður með stóðhestinn Klerk frá Bjarnanesi, sem er einn þekktasti keppnishestur landsins í fjórgangsgreinum um þessar mundir, þaulreyndur keppnishestur, þótt hann sé ekki svo ýkja gamall, 9 vetra. Klerkur er undan Snældu frá Bjarnanesi og Glampa frá Vatnsleysu.

Teitur Árnason er skráður með Hæng frá Hæli, sem hefur verið keppnishestur Ríkharðs Flemmings Jenssonar til nokkurra ára, og er nú í eigu Eddu Hrundar Hinriksdóttur. Farsæll keppnishestur, sem hefur fengið um og yfir 7,0 í einkunn í fjórgangi undanfarin tímabil.

Eyvindur Mandal Hreggviðsson er skráður með Hersvein frá Lækjarbotnum, Sveins-Hervarssyni. Hann hefur verið í keppni undanfarin ár, ofast undir hnakk hjá Bylgju Gauksdóttur. Fasmikill og fallegur hestur sem hefur náð allgóðum árangri og á ennþá góða möguleika á að bæta sig.

Sigurður V. Matthíasson er skráður á Kall frá Dalvík, sem er ekki óreyndur hestur. Var meðal annars í úrtöku fyrir HM í fyrra. Hann hefur náð allgóðum árangri í fjórgangi og alla vega tvisvar náð yfir 7,0 í einkunn, en oftar legið á bilinu 6,5 til 7,0.

Hulda Gústafsdóttir er skráð með hinn margreynda Sveig frá Varmadal, sem hefur verið í toppbaráttu í tölti og fjórgangi undir hnakk hjá Huldu síðustu tvö keppnistímabil. Fékk 7,97 í úrslitum í fjórgangi á Íslandsmóti í fyrra.

Artemis Bertus er skráð með stóðhestinn Óskar frá Blesastöðum, sem lengi hefur verið beðið af áhorfendum. Óskar þykir vera sérhannaður íþróttakeppnishestur frá náttúrunnar hendi, eins og hann kom fyrir í kynbótadómi. Töfrasonur frá Kjartansstöðum. Hann er með 9,0 fyrir tölt, vilja, fegurð og hægt stökk, og 9,5 fyrir stökk og hægt stökk, í kynbótadómi. Fyrir brokk 8,5 og 8,0 fyrir fet. Hann er nú á áttunda vetur en hefur ekki tekið þátt í keppni ennþá. Spennandi er að sjá hvort mótið í kvöld verður hans fyrsta.

Jakob Svavar Sigurðsson er skráður með stóðhestinn Asa frá Lundum, undan Bjarma frá Lundum og Auðnu frá Höfða. Klárhestur með 9,0 fyrir tölt, brokk, vilja, fegurð. Þeir félagar voru í úrslitum á Íslandsmóti í fyrra með 7,50 í einkunn.

Að lokum ríður svo inn á völlinn sigurvegari Meistaradeildar frá í fyrra, Sigurður Sigurðarson á stóðhestinum Loka frá Selfossi, en þeir báru sigur úr býtum í þessari grein í deildinni í fyrra. Loki er einn fremsti klárhestur og fjórgangshestur landsins um þessar mundir í það heila tekið. Er með frábærar einkunnir í kynbótadómi, var í A úrslitum á Reykjavíkurmóti í fyrra, en náði þó ekki upp í A úrslit á Íslandsmóti. Það getur því allt gerst í kvöld, eftir því hvernig dagsformið er.


Ráslisti:

1    Hinrik Bragason    Árbakki / Norður-Götur    Ketill frá Kvistum
2    Sigurbjörn Bárðarson    Lýsi    Penni frá Glæsibæ
3    Þorvaldur Árni Þorvaldsson    Top Reiter / Ármót    Segull frá Flugumýri II
4    Ævar Örn Guðjónsson    Spónn.is    Þokkadís frá Efra-Seli
5    Þórdís Erla Gunnarsdóttir    Auðsholtshjáleiga    Glefsa frá Auðsholtshjáleigu
6    Elvar Þormarsson    Spónn.is    Þytur frá Oddgeirshólum
7    Sylvía Sigurbjörnsdóttir    Ganghestar / Málning    Þórir frá Hólum
8    Eyjólfur Þorsteinsson    Lýsi    Klerkur frá Bjarnanesi
9    John Kristinn Sigurjónsson    Hrímnir    Indía frá Álfhólum
10    Teitur Árnason    Árbakki / Norður-Götur    Hængur frá Hæl
11    Eyvindur Mandal Hreggviðsson    Auðsholtshjáleiga    Hersveinn frá Lækjarbotnum
12    Sigurður Vignir Matthíasson    Ganghestar / Málning    Kall frá Dalvík
13    Guðmundur Björgvinsson    Top Reiter / Ármót    Hrafndynur frá Hákoti
14    Viðar Ingólfsson    Hrímnir    Vornótt frá Hólabrekku
15    Ólafur Ásgeirsson    Spónn.is    Hugleikur frá Galtanesi
16    Hulda Gústafsdóttir    Árbakki / Norður-Götur    Sveigur frá Varmadal
17    Lena Zielinski    Auðsholtshjáleiga    Njála frá Velli II
18    Sara Ástþórsdóttir    Ganghestar / Málning    Sóllilja frá Álfhólum
19    Artemisia Bertus    Hrímnir    Óskar frá Blesastöðum 1A
20    Jakob Svavar Sigurðsson    Top Reiter / Ármót    Asi frá Lundum II
21    Sigurður Sigurðarson    Lýsi    Loki frá Selfossi

Forsala aðgöngumiða á mótið er hafin og er aðgangseyrir krónur 1.500 og eru miðarnir til sölu í Líflandi, Top Reiter og Baldvini og Þorvaldi, Selfossi. Á sömu stöðum er einnig hægt að kaupa ársmiða á deildina en þeir kosta krónur 5.000 og með þeim fylgir DVD diskur frá Meistaradeildinni 2011.