föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meiriháttar klárhestur með skeiði-

22. maí 2012 kl. 20:00

Meiriháttar klárhestur með skeiði-

"Þetta kom mér ekkert á óvart. Ég var búin að hafa þessa tilfinningu, allt er svo auðvelt fyrir hestinn,” segir Þorvaldur Árni Þorvaldsson, sem sýndi Hrannar frá Flugumýri II í gríðarlega háan hæfileikadóm á Brávöllum á Selfossi í lok maí.
 
Hrannar hlaut hæsta dóm 6 vetra graðhesta en hann fékk 8,85 í aðaleinkunn, fyrir sköpulag 8,39 og fyrir hæfileika 9,16. Þar af hlaut hann 9,5 fyrir tölt og brokk og 9,0 fyrir skeið. “Hrannar er frábær hestur, hann hefur hreinar gangtegundir og gott jafnvægi. Hann er eins og klárhestur á tölti og brokki nema hann hefur einnig mjög gott skeið, svif mikið og öruggt,” segir Þorvaldur en Hrannar er hæst dæmdi stóðhestur sem fer inn á landsmót í ár.
 
“Allir reiðtúrar eru skemmtilegir á Hrannari. Maður kemur alltaf brosandi af baki,” segir Þorvaldur Árni jafnframt, en stutt er síðan hann fékk hestinn í þjálfun og hafði hann aðeins komið á bak honum í nokkur skipti fyrir kynbótasýninguna. “Ég nýt góðs af því sem Þórarinn Eymundsson og Eyrún Ýr Pálsdóttir voru búin að leggja í þjálfun á hestinum.”
 
Þórarinn sýndi Hrannar á Landsmótinu 2011 á Vindheimamelum í Skagafirði en þar stóð Hrannar annar í 5 vetra flokknum með 8,49 í aðaleinkunn. Hrannar hækkaði sig í gær á flestum stöðum eða fyrir tölt, brokk, skeið, fet og vilja og geðslag. Einnig hækkaði Hrannar í byggingu en áður var hann með 8,28 fyrir sköpulag.
 
Þorvaldur Árni er búin að sýna fjögur hross í yfir 9 fyrir hæfileika og eru fáir sem hafa gert það. Aðspurður hvað sé lykillinn að velgengni hans segir Þorvaldur að mikilvægasta sé að hesturinn vilji framkvæma hlutina sjálfur.