sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Með jákvæðni að vopni

3. janúar 2017 kl. 15:00

Dagmar Öder Einarsdóttir á Glóinn frá Halakoti.

Dagmar Öder Einarsdóttir er ung og á uppleið.

Dagmar Öder var valin efnilegasti knapi ársins á Uppskeruhátíð hestamanna. Dagmar átti góðu gengi að fagna í ár á hryssunni Glóeyju frá Halakoti en þær urðu meðal annars Íslandsmeistarar í fjórgangi í ungmennaflokki, sigruðu í sömu grein á Reykjavíkurmeistaramótinu og enduðu í þriðja sæti í ungmennaflokki á Landsmóti.

Dagmar er mikil keppnismanneskja og hefur mikinn metnað. „Auðvitað langar mann alltaf að gera sem best og enda á palli en það er líka mikilvægt að kunna að tapa. Það skipti pabba miklu máli að ég skyldi læra að tapa en alltaf þegar ég kom ósátt af keppnisvellinum sagði hann: „Ef þú kannt ekki að tapa þá áttu ekki skilið að vinna.“ Þetta mottó hef ég tileinkað mér. Pabbi tók á móti mér þegar ég kom út af vellinum og sagði alltaf: „Þetta fer í reynslubankann.“ Þannig hugsa ég þetta, þetta snýst ekki allt um sigur heldur líka reynsluna. Tap er jafn mikilvægt fyrir mig en maður lærir oft á því að tapa“, segir Dagmar en hún telur það skemmtilegasta við þetta allt saman sé að vera á hestum sem hún hefur lagt allt sitt í. „Ég þurfti að vinna fyrir hlutunum, ég fékk aldrei hross upp í hendurnar og aldrei voru keypt keppnishross fyrir mig. Ég þarf að temja og þjálfa mín hross sjálf. Til dæmis tamdi ég Oddu sjálf og Glódísi og Glóeyju hef ég þjálfað sjálf fyrir keppni. Á öllum mínum keppnishrossum byrjaði ég frekar illa enda hrossin að stíga sín fyrstu skref á keppnisbrautinni. Ég man að Odda fór sinn fyrsta skeiðsprett í kringum 11 sekúndum en núna er hún að fara undir átta sekúndum. Ég held áfram, set mér markmið um að ná því besta út úr hrossunum og það er það sem er gaman við hestamennskuna. Það skiptir mig engu máli að sýna mig og sanna á keppnisbrautinni og hefur aldrei gert. Auðvitað er gaman að vinna en það sem mér finnst langskemmtilegast er að rækta mín eigin hross, þróa þau áfram á keppnisbrautinni, æfa og bæta mín persónulegu markmið. Ég vil vinna fyrir hlutunum og bæta mín litlu og persónulegu markmið, sem ég hef unnið að í kannski langan tíma. Það er sigur fyrir mig, þá finnst mér ég vera sigurvegari,“ segir Dagmar.

Lestu viðtalið við Dagmar í heild sinni í nýjasta tölublaði Eiðfaxa. Hægt er að gerast áskrifandi í síma 511 6622 eða með tölvupósti eidfaxi@eidfaxi.is