sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mat á hófum

Óðinn Örn Jóhannsson
14. maí 2019 kl. 11:45

Of langur hófur með sprungu.

Ný vinnuregla við kynbótadóma.

Mat á hófum hefur verið að þróast á síðastliðnum árum og hefur verið að færast til þeirrar áttar að verðlauna í ríkara mæli form hófsins og rétt hlutföll innan hófsins; þætti er stuðla að heilbrigði og réttu álagi. Það hefur verið lögð áhersla á það í gegnum tíðina að hælarnir séu ekki of lágir og/eða slútandi og að hófarnir séu ekki útflenntir. Nú á að leggja einnig ríkari áherslu á það að hælarnir séu ekki of háir og/eða of brattir enda veldur það of miklu álagi á aftanverðan hófinn og fótinn. Miðað er við að það sé sami halli á kjúku og hóf. Einnig er hugmyndin að taka betur á of þröngum hófum enda eru það hófar sem taka ekki nægilega vel við álagi og virka ekki nægilega vel til að dempa þau högg sem hesturinn verður fyrir við snertingu hófsins við jörðina. Hugmyndin er að matið byggist meira á þessum þáttum en dýpt hófsins en fer dýpt hans að mestu eftir því hversu vaxinn hófurinn er. Byrjað var að horfa til þessa breytta mats á hófum í fyrra og það er stefnan að halda áfram á þessari braut.

Þessu tengt hefur lengi verið við lýði sú regla að hófar skulu ekki vera málaðir eða klístraðir (t.d. ólíubornir) í byggingardómi. Ætlunin er að fylgja þessu betur eftir í ár enda byrgir það dómurum nægilega góða sýn á hófinn.

Þá mun fara fram í ár gagnasöfnun á þáttum er tengjast hóf hestsins en ætlunin er að mæla, fyrir utan tálengd hófsins eins og verið hefur, einnig breidd hófsins um hófhvarf, breidd hófsins niðri við skeifu og að lokum lengd hælsins. Þetta er gert til að safna tölulegum upplýsingum um form hófsins til að vinna með næsta vetur en þessar mælingar munu ekki hafa áhrif á matið á hófum enn sem komið er. Þetta ætti ekki að bæta miklum tíma við mælingar hestsins og verður spennandi að skoða þessar mælingar eftir sumarið.