sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Markaðurinn er heldur að lifna

22. september 2011 kl. 12:35

Markaðurinn er heldur að lifna

Sara Ástþórsdóttir hrossaræktandi og tamningakona í Álfhólum hefur heldur betur verið að ná athygli fólks bæði hér á landi sem og erlendis en Sara heldur úti mjög góðri heimasíðu um hrossin sín. Á síðunni er mikið af upplýsingum, myndum og vídeó myndbrotum af hrossum bæði til kynningar á ræktun hennar og til að selja hross.

Sara sýndi í sumar ræktunarbúið sitt á Landsmóti og vakti það að vonum mikla athygli og varð annað besta búið á mótinu. Sara sjálf reið gæðingi sínum Dívu en Díva hefur staðið sig með eindæmum vel bæði í kynbótabrautinni og á hringvellinum. Í kynbótadómi er Díva meðal annarra góðra einkunna með  10,0 bæði fyrir Tölt og Vilja/geðslag og geri aðrir betur. Á keppnisvellinum í sumar fór hún meðal annars í 8,39 í Tölti T1 á Íslandsmótinu.ís líka

Eiðfaxi hringdi í Söru til að forvitnast um gang mála:

„Nú er verið að temja hóp af ungum hrossum.“ sagði Sara. 

Er margt efnilegt?
„Já, eitthvað er af hestefnum í hópnum. Til dæmis erum við með hryssu á fjórða undan Dimmi og hryssu af vindótta kyninu okkar. Hún er í miklu uppáhaldi í dag.“

Er mikil vinna hvern dag að halda svona góðum vef úti?
„Já, það er mikil vinna og manni finnst maður aldrei vera nógu duglegur. Hrefna María hjálpar mér hinsvegar mikið og er dugleg að uppfæra sérstaklega söluhrossin á síðunni“. Það er hægt að „kommentera“ við færslur á vefnum og finnst mér það gera vefinn meira spennandi fyrir gesti, hann verður gagnvirkur og sumir gestir eru duglegir að setja inn athugasemdir. Ég er nú svo heppin að eiga góða vinkonu hana Sögu Steinþórsdóttur en hún hjálpar mér mikið, þýðir til dæmis vefinn yfir á ensku og svo er það hún Sabine K. Hornung, mikill Íslandsvinur úti í Þýskalandi sem þýðir vefinn á Þýsku. Þetta er mikils virði og gefur okkur auknar heimsóknir erlendis frá“.

 Hvernig ganga sölumálin, er markaðurinn að lifna við?
„Já maður hefur það  á tilfinningunni að hann sé heldur að lifna, alla vega er meira líf nú en í sumar og síðasta vetur. Reyndar er alltaf markaður fyrir mjög góð hross og þau halda sínum verðum.  Þægu hreingengu hrossin þurfa að vera  vel tamin og undirbúin áður en maður býður þau til sölu. Við bjóðum ekki hross sem okkur líkar ekki við, höfum það fyrir reglu. Svo er áríðandi að koma hreint fram“.

Áttu einhver afkvæmi undan Dívu?
„Nei, ekki enn, en ég tók úr henni fósturvísi í sumar og er fósturmóðirin staðfest með fyl undan Þrumufleyg. Síðan ætlaði ég að halda Dívu en missti af því þegar ég var að keppa á henni á Íslandsmótinu“.

Verður hún þá í keppninni næsta sumar?
„Sennilega eitthvað, allavega í tölti. Kannski reyni ég hana í gæðingakeppninni, en það kemur bara í ljós“ sagði Sara að lokum.
Hér er hægt að fara inn á Álfhóla síðuna.