miðvikudagur, 19. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Markaðssetning íslenska hestsins erlendis

14. desember 2009 kl. 14:18

Markaðssetning íslenska hestsins erlendis

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hélt í morgun, 10. Desember 2009, fréttamannafund þar sem kynnt var skýrslan: Markaðssetning íslenska hestsins erlendis. Skýrslan er unnin af nefnd á vegum ráðuneytisins sem hafði að verkefni, m.a. að meta hvernig staðið er að kynningu íslenska hestsins erlendis.

Nefndin hefur nú lokið störfum og komið fram með ýmsar hugmyndir til að auka framgang íslenska hestsins alþjóðlega í samkeppni við önnur sporthestakyn, tryggja stöðu hrossa fæddra og uppfóstraðra á Íslandi í samkeppni við erlend fædd hross af íslenskum stofni og auka þátt hestsins í landkynningu. Skal hér nefnt þrennt:

Fyrsta; markaðsátak á árinu 2010 undir heitinu: Hestavika á Íslandi að vetri en íslensk vetrarhestamennska bæði í borg og byggð er á margan hátt einstök í sinni röð. Annað; aukið yrði framboð á fjölþættum hestasýningum fyrir ferðamenn og þriðja; gert yrði átak til að fá viðurkenningu á hestaíþróttum á íslenskum hestum sem ólympíska íþrótt.

Þær staðreyndir sem við horfum á varðandi íslenska hestinn eru m.a. þær að um 60 þúsund félagsmenn eru starfandi í Íslandshestafélögum um allan heim, þar af um 11 þúsund á Íslandi. Heildarverðmæti útflutnings ársins 2008 var 1.1 milljarður króna og meðalverð hrossanna var rúm fimmhundruðþúsund. Um 18% allra ferðamanna hér á landi fara á hestbak og eru það um það bil 90 þúsund ferðamenn.

Helstu tillögur nefndarinnar að styrkingu hestamennskunnar:

  • Þýða knapamerkjakerfið á erlend tungumál.
  • Þróunarfjárnefnd hrossaræktarinnar fái áfram sama framlag að raungildi og síðustu fimm árin.
  • WorldFengur verði alhliða opin vefgátt um íslenska hestinn, á helstu tungumálum og verði fyrsta vefgátt leitarvéla um íslenska hestinn. Hann verði áfram miðpunktur fagupplýsinga en að auki markaðsgluggi með aðgengilegum upplýsingum og fræðsluefni, auk upplýsinga um söluhross.


Helstu tillögur nefndarinnar tengdar ferðaþjónustu:

  • Nýta íslenska hestinn betur í landkynningarstarfi og efla framleiðslu á kynningarefni.
  • Beina markaðsstarfi að aðdáendum íslenska hestsins erlendis.
  • Gera upplifun af íslenska hestinum jafn eftirsóknarverðan hluta af Íslandsdvöl og t.d. Gullni hringurinn og Bláa lónið.
  • Markaðsátak 2010 - Hestavika að vetri í mars 2010, þar sem lagt verði í sérstakt átak til kynningar á íslenskri vetrarhestamennsku um land allt. Boðið verði upp á fjölþætta viðburði innan dyra og utan, s.s. opið hesthús, töltkeppni, ískappreiðar o.fl. Einn af hápunktum þessa viðburðar yrði uppboðsmarkaður fyrir hross í líkingu við markaði sem haldnir eru víða erlendis fyrir hross af ýmsum heitblóðskynjum.
  • Auka framboð á öllum tímum árs á fjölbreyttum tilboðum fyrir erlenda áhugamenn um íslenska hestinn, um fræðslu og kennslu o.fl.
  • Auka framboð á hestasýningum sem afþreyingu fyrir ferðamenn.


Lesa má skýrslu nefndarinnar í heild sinni hér