fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Margt spennandi í 3. tölublaði Eiðfaxa

30. apríl 2010 kl. 13:16

Margt spennandi í 3. tölublaði Eiðfaxa

Þriðja tölublað Eiðfaxa er nú í prentun og mun koma út um miðja næstu viku. Í blaðinu er fullt af áhugaverðu efni. Þar má nefna umfjöllun um Ístölt þeirra allra sterkustu, grein um undirbúning og ferðabúnað í hestaferðum, þriðja greinin frá Guðmundi Björgvinssyni um þjálfun gæðingsins, viðtal við Magnús Jósefsson hrossabónda í Steinnesi, fjallað um breytt vægi í kynbótadómum, LM 2012 og fleira og fleira.

Eiðfaxi minni á að hægt er að kaupa blaðið í lausasölu á bensínstöðvum N1, Olís, í hestavöruverslunum sem og í Pennanum og Office 1.

Hér á eftir fer stuttur kafli úr byrjun greinarinnar hans Guðmundar Björgvinssonar:

[...]
Áherslur þjálfunar
Allt snýst þetta jú um að sýna sem mest rými og fótaburð með sem mestu fasi og mér finnst sprengjukrafturinn vera eitt lykilatriðið í því. Undir vorið þjálfa ég hestana mikið með snörpum uppkeyrslum á tölti jafnt sem brokki og pirra mig síður á taktfeilum sem oft fylgja, það kemur smám saman. Mér finnst mikilvægast að framhugsunin sé gríðarleg en það er líka mikilvægt að geta slökkt á hestinum á feti á milli og einnig á tölti og brokki. Stökk er það sama, ríð alltaf hægt fyrst og læt svo vaða. Gangskiptingarnar vil ég líka þjálfa undir miklum þrýstingi og þegar þær eru orðnar í lagi í þjálfunartúrum ætti að vera mun einfaldara að framkvæma þær á vellinum. Áríðandi er að hestarnir skilji og bregðist rétt við ábendingum um gangskiptingar, eins og til dæmis tölt og brokk, án þess að maður þurfi að ná þeim í slökun áður. Þá fyrst fæst almennilegt svif og spyrna frá fyrsta skrefi. Á vellinum kenni ég hestinum að taka vel á á langhliðum og þiggja slökun á skammhliðum.


Styttri túrar
Nú er ég farinn að gera meiri kröfur til hrossanna og kalla fram þá ásýnd sem ég vil hafa á þeim í keppni. Ég leita eftir meiri hreyfingu og legg meiri áherslu á rýmið. Eins er ég að reyna að koma hrossunum í meiri stemningu til að fá fram fallegra fas og hreyfingar. Láta þau beita sér meira á gangtegundunum. Þetta geri ég meðal annars með því að stytta reiðtúrana aðeins, passa að hafa hestinn ferskan og óþreyttan alla þjálfunina. Ég passa vel upp á gott andlegt og líkamlegt jafnvægi hans og sleppi aldrei tökunum á grunninum, sem svo mikil vinna hefur verið lögð í. Ríð sem sagt alltaf töluvert mikið fet, bæði í upphafi reiðtúrs, í honum miðjum og í endann.

[...]