laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Margt jákvætt frá fundi hagsmunaaðila innan hestamennskunnar

25. júní 2010 kl. 19:53

Margt jákvætt frá fundi hagsmunaaðila innan hestamennskunnar

Landssamband hestamannafélaga, Félag tamningamanna og Félag hrossabænda stóðu fyrir fundi í gær, fimmtudaginn 24.júní, þar sem rætt var um stöðu hestamennskunnar á Íslandi í dag. Þar voru samankomnir fulltrúar ráðuneyta, háskóla, hrossaútflytjenda, MAST, BÍ, LM auk fundarhaldara.


Margt jákvætt kom fram á fundinum og það eru blikur á lofti að nú fari að styttast þar til hestamennskan fari að glæðast á ný.

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma MAST, greindi frá því að nú sé farið að huga að því að opna fyrir útflutning á ný, sennilega um miðjan ágúst. Einnig sagði hún frá áætlunum MAST um eflingu á smitvörnum til landsins. Guðlaugur Antonsson, hrossarræktaráðunautur, greindi frá því að til kynbótasýninga sem halda á í næstu viku eru um 220 hross skráð. Magnús Jósefsson, hrossaræktandi í Steinnesi, greindi frá því að nú væri verið að sóna fyrstu merar frá stóðhestum og frjósemi virðist vera í góðu lagi. Víkingur Gunnarsson, deildarstjóri hrossaræktardeildar Háskólans á Hólum, sagði að umsóknir hefðu aldrei verið jafnmargar og nú sem sýndu óbilandi áhuga unga fólksins á greininni. Eyþór Einarsson greindi frá því að Skagfirðingar ætli að halda Sumarsælu í Skagafirði sem hefst 25.júní og stendur til 5.júlí. Þar verður m.a. opnir dagar hrossaræktarbúa og kynbótasýning seinni hluta vikunnar. Á fundinum kom einnig fram góð samstaða um að halda Landsmót að ári, 26.júní – 3.júlí 2011, í Skagafirði.

Þó svo að margt jákvætt hafi komið fram á fundinum greindu fundarmenn frá því að staðan á veikinni væri mjög misjöfn milli hesta og misjafnt hversu lengi hrossin væru að jafna sig en heilt yfir væri ástandið að fara batnandi.