miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Málefni Landsmóts ehf

Óðinn Örn Jóhannsson
11. október 2018 kl. 09:22

Landsmót 2018

Gott samstarf, stórar ákvarðanir og sameiginleg framtíðarsýn

Í þessum pistil ætlum við undirritaðir Lárus Ástmar Hannesson formaður stjórnar og Ólafur Þórisson gjaldkeri að fara yfir málefni Landsmóts ehf  (LM) en við höfum setið í stjórn félagsins fyrir hönd Landssambands hestamannafélaga undanfarin fjögur ár. Landsmót ehf er í eigu LH að tveimur þriðju og Bændasamtökum Íslands (BÍ) að einum þriðja.   Ásamt okkur er í stjórn fyrir BÍ Gunnar kr. Eiríksson bóndi á Túnsbergi. Þetta félag er hestamennskunni ákaflega mikilvægt en er minna í umræðunni en LH um þessar mundir. Sjálfsagt eru ekki margir sem gera sér grein fyrir þeim jákvæðu breytingum og því sem stjórn LM hefur áorkað á undanförnum fjórum árum. Við ætlum að fara yfir nokkur mál sem við höfum unnið að og ýmist klárað eða eru í vinnslu.

 A)       Á undanförnum árum hefur verið skrifað undir þrjá samninga um landsmót en það eru landsmótin 2016, 2018 og 2020 og eina viljayfirlýsingu um landsmót 2022.  Það er ákaflega mikilvægt að hafa ákveðið landsmótsstaði vel fram í tímann og binda alla enda. 

B) Mótið, sem vera átti samkvæmt viljayfirlýsingu, á Vindheimamelum var fært að Hólum í Hjaltadal. Mótið gekk vel og er greinilega kominn landsmótsstaður á Norðurlandi. Mikil uppbygging var á staðnum og sú uppbygging varð eftir og nýtist skólanum.  Þar viljum við ekki síst nefna dómhúsin tvö sem eru samstarfsverkefni margra velviljaðra aðila. Húsin voru færð Hólaskóla að gjöf í lok mótsins.  

C) Fyrir landsmótið 2018 var rekstrarforminu breytt þannig að framkvæmd og rekstrarábyrgð var í höndum mótshaldara. Það þótti fullreynt að halda áfram að reka mótin með sama fyrirkomulagi og verið hafði.  Þungt var að greiða niður skuldir við eigendur og bankastofnanir og því áríðandi að taka ábyrgar ákvarðanir með hagsmuni félagsins, og þar af leiðandi eigendum þess, í huga ef ekki átti að fara verr en orðið var.

D) Fyrirhugað er að þetta form verði á næstu mótum. Þetta fyrirkomulag er með álíka hætti og verið hefur hjá FEIF varðandi heimsmeistaramótin.  Stjórn LM hefur verið sammála um að til framtíðar verði samningarnir þannig að þóknuni til LM verði ákveðið hlutfall af seldum miðum en það kerfi mun einfalda samningana. 

E) Sú stefna var tekin í stjórn LM að myndbandsupptökur af landsmótum sem eru í eigu LM verði sett inná World fenginn fyrir áhugasama að horfa hvenær sem vill. Ekki létum við þar við sitja heldur höfum einnig keypt upptökur, unnið efni og einkarétti af öllum landsmótum frá árinu 2000 sem tekin hafa verið upp. Þetta verkefni sýnir framsýni og ábyrgð sem á eftir að nýtast okkur hestamönnum í framtíðinni.  

F) Stjórn LM hefur í hyggju að kanna með samstarf eða kaup á efni frá heimsmeistaramótum til gagns og nýtingar með sama hætti.

G) Landsmót ehf er nú skuldlaust félag að undanskildum skuldum við eigendur sína og fyrirsjáanlegt að á næstu árum verði farið í að greiða niður þær skuldir.

Á næstunni liggja fyrir stór verkefni sem eru að ljúka uppgjöri við Fák eftir mótið í sumar. Klára samninginn við hestamannafélagið Sprett vegna mótsins 2022 og finna og velja mótshaldara fyrir landsmótið 2024.  

Samstarf innan stjórnarinnar hefur verið mjög gott. Einnig hefur samstarf við þá aðila sem við höfum verið að vinna með í stórum sem smáum verkefnum verið traust og ánægjulegt. 

Lárus Ástmar Hannesson og Ólafur Þórisson