fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Málefnalegur fundur í Víðidal

6. mars 2012 kl. 12:56

Málefnalegur fundur í Víðidal

Rúmlega 50 manns mættu á fyrstu samkomu fundarraðar um hrossarækt og hestamennsku sem fram fór í Víðidal í Reykjavík í gærkvöldi. Kristinn Guðnason formaður Félags hrossabænda og fagráðs í hrossarækt, Guðlaugur V. Antonsson hrossaræktarráðunautur Bændasamtaka Íslands og Lárus Hannesson formaður Gæðingadómarafélags LH voru með framsöguerindi.

Lagður var fram undirskriftarlisti um 350 eigenda kynbótahrossa og sýnenda þeirra þar sem skorað er á fagráð í hrossarækt að endurskoða þá ákvörðun að hafa ekki kynbótasýningu á félagssvæði Fáks í vor. Forsvarsmenn hópsins hafa einnig rætt við aðila innan Hrossaræktarsamtaka Suðurlands og Búnaðarsambandsins, sem setur fram óskir um sýningardagskrá í umdæminu. Beðið er eftir svörum um hvort hægt verði að setja kynbótasýningu í Víðidal inn í sýningardagskránna.
 
Öll kynbótahross inn á aðalsýningartíma
 
Kristinn Guðnason kom fram með nýja tillögu að fyrirkomulagi kynbótasýningar á komandi landsmóti. Felst sú hugmynd í því að kynbótahross verði dæmd á kynbótavellinum í Víðidal eftir nær óbreyttu fyrirkomulagi, þó hugsanlega yrði ferðum fækkað. Yfirlitssýningar færi fram á fimmtudegi á þeim sama velli á meðan dagskrá gæðingakeppninnar færi fram á Hvammsvelli. Á föstudegi og laugardegi yrði hins vegar sýning á Hvammsvelli þar sem öll kynbótahrossin yrðu sýnd, 3-5 hross í einu, og enginn dómur ætti sér stað. Fá þá knapar færi á að sýna það besta í hrossinu frammi fyrir áhorfendum. 
 
Í samtali sem Eiðfaxi átti með Kristinn í morgun sagðist hann ánægður með þær viðtökur sem tillaga hans fékk í gær, hugmynd hans væri enn í mótun en hann hugðist setja hana fram á fundum um hrossarækt og hestamennsku sem fara fram um allt land næstu vikur og fá viðbrögð við henni. 
 
Að hans mati leysti tillagan mörg af þeim vandamálum sem menn sáu við óbreytt fyrirkomulag og hið nýja hringvallarfyrirkomulag sem fagráð setti fram og féll í grýttan jarðveg hjá mörgum aðstandendum kynbótahrossa. Flest allir væru sammála um að sýning kynbótahrossanna mætti verða áhorfendavænni en það sem sýndi sig í óbreyttu formi, þar sem knapar reyndu skiljanlega eftir fremsta megni að fá hærri einkunnir fyrir þær gangtegundir sem fengu lökustu einkunn í fordómi. Kvartað hefði verið yfir því hve klárhross ættu erfitt uppdráttar að komast í 10 efstu sæti og þ.a.l. inn á aðalsýningartíma. 
 
Samkvæmt tillögunni fara allir dómar fram við óbreyttar aðstæður, en öll hross fá einnig tækifæri til að heilla áhorfendur á aðaltíma landsmóts.
 
Annar fundur um hrossarækt og hestamennsku fer fram í kvöld, þriðjudaginn 6. mars, í félagsheimili Sleipnis á Selfossi í kvöld og hefst kl. 20.30.